Elding, félag smábátaeiegnda á norðanverðum Vestfjörðum hélt aðalfund sinn á sunnudaginn. Fundurinn var haldinn á Ísafirði. Að venju voru fjörlegar umræður um málefni smábátaeigenda og gerðar ályktanir um nokkur þeirra. BB héraðsfréttablaðið á Ísafirði var statt á fundinum og greindi frá honum á vef sínum.
Sérstök ályktun var um frumvarp sjávarútvegsráðherra og mótmælt þeim tillögum að breyta línuívilnun í almennan byggðakvóta. Ketill Elíasson, fráfarandi formaður Eldingar sagði í samtali við blaðið Bæjarins besta að smábátasjómenn vildu halda veiðiheimildunum sem ráðstafað var til línuívilnunar áfram í krókaveiðar og þeirra tillaga væri að setja þessar heimildir í strandveiðarnar.
Svæðaskipting sanngirnismál?
Í umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga um fyrrgreint frumvarp ráðherra er sleginn nýr tónn og þar segir að það væri til bóta og sanngirnismál að setja svæðaskiptingu strandveiðisvæða. Ketill svaraði því til að hann áttaði sig ekki á þessari umsögn. „Ég hef ekki heyrt það á nokkrum manni hér sem kemur að strandveiðunum að menn vilji þessa svæðaskiptingu. Bátum hefur fjölgað á strandveiðum á okkar svæði þar sem bátar koma að og ég sé ekki annað en að það sé okkur til hagsbóta.“ Ketill sagði að vantað hefði samráð við smábátasjómenn af hálfu sveitarstjórnarmanna þau tvö ár sem hann var formaður Eldingar.
Styðja hvalveiðar
Af öðrum ályktunum sem gerðar voru á aðalfundi Eldingar má nefna að samþykktur var stuðningur við hvalveiðar og hvatt til þeirra. Þá félla áform ráðherra um kvótasetningu grásleppu í grýtta jörð og mótmælti fundurinn þeim harðlega, segir í frétt BB.