Nauðsynlegt að breyta upplýsingum svo „skattmann“ á Íslandi sæi þau ekki
Jóhannes Stefánsson greindi frá því þegar Namibíumálið var afhjúpað að Aðalsteinn Helgason hefði sagt við sig að hann ætti að borga sjávarútvegsráðherra ef hann fái tækifæri til þess. Hingað til hafa stjórnendur Samherja haldið því fram að þeir hafi ekki vitað af greiðslum Jóhannesar, en þau gögn sem Stundin vísar til í blaði dagsins benda til annars. Þetta kemur fram í umfjöllun Stundarinnar í dag, þar sem ný gögn eru birt í Samherjamálinu í Namibíu.
Aðalsteinn Helgason, f.v. stjórnarmaður í Samherja og umsjónarmaður Afríkuútgerðar fyrirtækisins, skrifaði í skilaboðum til Jóhannesar Stefánssonar uppljóstrara að á einhverju stigi kunni „að skipta máli að múta einhverjum leiðtoga þessara manna.“
Skilaboðin eru frá árinu 2011, skömmu áður en Samherji haslaði sér völl í Namibíu undir merkjum Kötlu Seafood.
Samskipti í gegnum tölvupóst aðstoðarkonu
Í blaðinu er meðal annars greint frá samskiptum Jóhannesar og Aðalsteins. Aðalsteinn sendi svo upplýsingar um gang mála í tölvupósti til Margrétar, aðstoðarkonu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja.
Fram kemur að Þorsteinn Már hafi spurt í tölvupósti árið 2012 hvort allt þurfi að vera til í póstum á milli manna. Í umfjöllun Stundarinnar segir að Þorsteinn Már taki við og svari tölvupóstum úr netfangi aðstoðarkonu sinnar.
Þá kemur fram í Stundinni að KPMG hafi breytt skýrslu sinni um stjórnendamynstur Samherjasamstæðunnar eftir að Þorsteinn Már lýsti yfir óánægju sinni með drög hennar.
Í drögunum var Þorsteinn Már nánast sagður einráður hjá fyrirtækinu. Þar sagði að forstjórinn væri eini framkvæmdastjóri Samherja og engin formleg framkvæmdastjóri væri í samstæðunni.
Verulegar ,,skattalegar afleiðingar“ ef starfsemi samstæðunnar væri stýrt frá Íslandi
Ágúst Karl Guðmundsson, starfsmaður skatta- og lögfræðisviðs KPMG sagði í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara að þessari lýsingu hafi verið breytt samkvæmt ósk Samherja. Þá kom fram í skýrslutökunni að það hefði verulegar skattalegar afleiðingar ef allri starfsemi samstæðunnar væri stýrt frá Íslandi. Ef erlendum dótturfélögum Samherja er stýrt af erlendri stjórn er ekki hægt að skattleggja félagið á Íslandi og sama mæli og ef dótturfélaginu væri stjórnað frá Íslandi.
Aðalsteinn Helgason varaði Jóhannes Stefánsson við þessu í mars 2015. Þá skrifaði Jóhannes minnisblað þar sem hann sagði starfsemi Samherja í Namibíu stjórnað með endanlegum hætti frá Íslandi. Aðalsteinn sagðist í tölvupósti vita hvers vegna Jóhannes skrifaði þetta, en hann yrði að breyta þessu svo „skattmann“ á Íslandi sæi þetta ekki.
Í Stundinni er bent á að fordæmi sé fyrir ákæru fyrir meiri háttar skattalagabrot í sambærilegu máli hér á landi. Útgerðarfélag í Afríku sem var í eigu Sjólaskipa þótti sannarlega vera stjórnað frá Íslandi. Bræðurnir Guðmundur og Haraldur Jónssynir voru ákærðir fyrir að vantelja tekjur upp á einn milljarð króna. Þetta kemur fram í umfjöllun Stundarinnar í dag