Helga Vala tók þátt í pallborði málþingsins og fékk fljótlega spurningu um hvernig kjör öryrkja myndu batna þegar Samfylkingin kæmist í ríkisstjórn. Helga sagði þetta góða spurningu en hún vildi svara henni frá eigin hjarta, en ekki sem stjórnmálamaður. Hún sagði kerfið í raun vera mjög vitlaust.
Helgu þykir illa farið með opinbert fé og stefnan heimskuleg
„Við erum stöðugt að reyna að byggja undir alls konar virkni með ýmsum hætti en einhvern veginn þá höfum við ákveðið að hafa sama hóp við fátækrarmörk og búa til ýmiskonar rándýr kerfi til að hafa eftirlit með þeim sama hópi, til þess að athuga hvort það sé nokkuð verið að svindla, til þess að kanna hvort viðkomandi geti sinnt börnunum sínum og mér finnst kerfið vera að vinna gegn öllu sem heitir mannúð og samfélagsvitund.“
Aðspurð um hvort borgaralaun gæti verið góð lausn fyrir öryrkja sagði Helga Vala að henni skildist að reynsla Finna af borgaralaunum hafi ekki verið góð, en að hún: „vildi frekar gera þá tilraun að hætta algerlega með allar skerðingar. Og ég er alveg tilbúin til að taka þá tilraun svolítið rösklega og afdráttarlaust, af því ég er 100% fullviss um það að það mun auka mjög velsæld í öllu samfélaginu. Það er alveg fáránlegt að standa frammi fyrir fjölskyldumeðlimi og reyna að efla viðkomandi til þess að fara út á morgnana, berjast fyrir því mögulega vikum og mánuðum saman, og loksins þegar maður nær því markmiði, að sitja svo óttaslegin vegna þess að maður óttast að viðkomandi einstaklingur fái bréfið frá Tryggingastofnun með upplýsingunum um að honum verði refsað fyrir að hafa hlustað á okkur, þegar við vorum að reyna að fá viðkomandi út. Þetta er eins heimskulegt og hugsast getur.“ Segir Helga Vala skv. frétt á vef ÖBÍ.