Framundan eru blómatímar hjá HS-veitum – Staða stærri sveitarfélaga landsins er skelfileg

Sigurður Þ. Ragnarsson bæjarfulltrúi Miðflokksins í Hafnarfirði hefur undanfarna mánuði mótmælt sölu bæjarins á ,,mjólkúrkú“ bæjarins sem eru 15% hlutur í HS veitum. Bæjarstjórn heimilaði ekki íbúakosningu um málið og hélt sínu striki og haldnir voru leynifundir um málið þar til söluferlinu var lokið. Sigurður Þ. Ragnarsson sagði við þetta tilefni: Þetta var svartur dagur í dag þegar meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ákváðu að selja hlut Hafnarfjarðar í orkuveitufyrirtækinu HS-Veitum. Hlutur Hafnarfjarðarbæjar hefur frá 2013 hækkað um 2 milljarða.
Staða stærri sveitarfélaga landsins er skelfileg. Úr því verður að bæta með úrræðum sem ríkisvaldið getur ekki hundsað því 90% verkefna sveitarfélaga er lögboðin þjónusta. Eftir þessum aðgerðum vill meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ekki bíða heldur drífa í að selja gullgæsina sem margfaldað hefur verðgildi sitt.
Framundan eru blómatímar hjá HS-veitum s.s. rafvæðing hafnanna, fiskeldi og fleira sem gera mun verðmæti hlutabréfa HS-veitna enn meira. Framhjá þessum hagsmunum vill meirihlutinn í Hafnarfirði horfa. Þetta mun á endanum hækka verð til neytenda þótt þröngur rammi sé til þess nú en hingað til hefur það ekki þvælst fyrir löggjafarvaldinu að breyta lögum, enda lög mannanna verk. Skammtímasjónarmið ráða hér því algjörlega ferðinni hjá meirihlutanum.