,,Nú er 990 mb lægð austur af landi og 1028 mb hæð yfir Grænlandi og saman valda þessi kerfi norðlægri átt hjá okkur. Framan af degi er útlit fyrir norðaustan kalda á landinu, strekkingur á stöku stað. Búast má við einhverri snjókomu á austurhelmingi landsins og slyddu við ströndina, einnig snjóar aðeins vestur eftir norðurströndinni og á Vestfjörðum. Þegar líður á daginn gefur vindurinn eftir og úrkoman verður lítil eða engin. Frostið í dag verður vægt, sums staðar jafnvel frostlaust við ströndina.“ Að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
,,Á morgun er útlit fyrir norðlæga golu, en ákveðnari vindur með austurströndinni. Norðanáttinni fylgja dálítil él á Norður- og Austurlandi, en það eru horfur á léttskýjuðum degi sunnan heiða. Það kólnar í veðri og frostið verður á bilinu 2 til 12 stig.
Sunnudagurinn heilsar með hægum vindi og léttskýjuðu veðri um allt land og jafnframt mjög köldu. Seinnipartinn bætir í vind vestast á landinu og það þykknar upp þegar úrkomusvæði fer að nálgast vestan úr hafi.
Af ofansögðu er ljóst að næstu daga er tiltölulega rólegt vetrarveður í vændum og tilvalið til útivistar. Muna þarf þó að klæða af sér kuldann. Langtímaspár gera ráð fyrir áframhaldandi kulda í næstu viku.“ Spá gerð: 25.01.2019 06:30. Gildir til: 26.01.2019 00:00.
Veðurhorfur á landinu
Norðaustan 5-13 m/s og él, en þurrt suðvestan- og vestanlands. Heldur hægari seinnipartinn og úrkomulítið. Frost 0 til 5 stig.
Norðan 3-8 á morgun, en 8-13 með austurströndinni. Dálítil él á Norður- og Austurlandi, en léttskýjað sunnan heiða. Frost 2 til 12 stig.
Spá gerð: 25.01.2019 05:36. Gildir til: 26.01.2019 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag:
Hæg breytileg átt, víða þurrt og bjart veður og frost 5 til 15 stig. Suðaustan 5-10 seinnipartinn suðvestantil á landinu, þykknar upp þar og minnkar frost með snjókomu um kvöldið.
Á mánudag:
Breytileg átt 3-10 m/s. Dálítil snjókoma eða él í flestum landshlutum. Frost 1 til 10 stig.
Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:
Útlit fyrir norðan- og norðaustanátt, víða á bilinu 8-13 m/s. Él norðan- og austanlands, en léttskýjað sunnan heiða. Frost 2 til 14 stig, kaldast inn til landsins.
Spá gerð: 25.01.2019 08:18. Gildir til: 01.02.2019 12:00.