Samkeppnieftirlitið hefur hafið formlega rannsókn gagnvart Landsvirkjun, þar sem til skoðunar er hvort tiltekin ákvæði í samningum félagsins við stórnotendur standist ákvæði samkeppnislaga og samkeppnisreglur EES-samningsins. Um er að ræða ákvæði í samningum Landsvirkjunar við stórnotendur sem kveða á um að þeim sé ekki heimilt að selja frá sér ónýtta raforku aftur inn á kerfið.
Takmarkanir af þessu tagi, af hálfu markaðsráðandi fyrirtækis, geta falið í sér brot á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu skv. 11. gr. samkeppnislaga og 54. gr. EES-samningsins. Þannig geta slík samningsákvæði verið til þess fallin að verja eða styrkja stöðu hins markaðsráðandi fyrirtækis á kostnað viðskiptavina og almennings. Í samkeppnismálum erlendis hafa slík endursölubönn markaðsráðandi raforkufyrirtækja verið talin draga úr skilvirkni heildsölumarkaða með rafmagn sem leiðir til minni samkeppni og raforkuöryggis. Brjóti samningsákvæði í bága við samkeppnislög teljast þau ógild, sbr. 1. mgr. 33. gr. samkeppnislaga.
Upphaf málsins má rekja til bréfs Samkeppniseftirlitsins til Landsvirkjunar frá 23. nóvember 2023, þar sem óskað var eftir upplýsingum frá Landsvirkjun um umrædd ákvæði. Í kjölfarið var Landsvirkjun tilkynnt með bréfi dags. 9. febrúar 2024 um að Samkeppniseftirlitið hefði ákveðið að taka umrædd ákvæði, og samkeppnisleg áhrif þeirra, til rannsóknar.
Samkeppniseftirlitið hefur jafnframt upplýst Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), um opnun málsins í samræmi við þær skyldur sem hvíla á samkeppnisyfirvöldum á EES-svæðinu. ESA hefur í eldri málum ekki lagt mat á hvort samningar Landsvirkjunar við stórnotendur innihaldi ákvæði sem brjóti gegn samkeppnisreglum EES-samningsins.
Við rannsókn af þessu tagi er markaður málsins skilgreindur og staða viðkomandi fyrirtækis metin. Sé fyrirtækið talið markaðsráðandi er í framhaldinu tekin afstaða til þess hvort um brot sé að ræða. Telji eftirlitið að íþyngjandi ákvörðun kunni að verða tekin er fyrirtækinu sem rannsókn beinist að birt svokallað andmælaskjal þar sem frummati eftirlitsins er lýst og fyrirtækinu gefinn kostur á að koma ítarlegum sjónarmiðum á framfæri, áður en ákvörðun er tekin. Tilkynning um upphaf máls er liður í málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins en í henni felst hvorki endanleg afstaða til mögulegra brota né vísbending um mögulega niðurstöðu rannsóknarinnar. Rannsókn þessa máls er á fyrstu stigum.