Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og forseti ráðherranefndar Evrópuráðsins lagði þunga áherslu á grunngildi Evrópuráðsins, mannréttindi, lýðræði og réttarríki, er hún ávarpaði þing Evrópuráðsins í Strassborg í dag. Í ræðu sinni sagði utanríkisráðherra að þessi grunngildi ættu að vera leiðarljós í allri ákvarðantöku, ekki aðeins á alvarlegum umbrotatímum eins og nú þegar stríð geysar í Evrópu.
„Í stað þess að velja þá leið sem virðist hentugust hverju sinni eða er arðbær til skamms tíma ættum við að velja þær leiðir sem þjóna æðri hugsjónum okkar,” sagði Þórdís Kolbrún meðal annars í máli sínu.
Ásamt því að líta yfir farinn veg í formennsku Íslands og komandi leiðtogafund Evrópuráðsins 16. og 17. maí í Reykjavík ítrekaði ráðherra jafnframt staðfastan stuðning og samstöðu við Úkraínu sem væri ein af megináherslunum í formennskutíð Íslands.
„Við höfum unnið hörðum höndum að því að tryggja að niðurstaða leiðtogafundarins í Reykjavík í maí styrki samstöðu okkar enn frekar,“ sagði utanríkisráðherra.
Þing Evrópuráðsins kemur saman í Strassborg fjórum sinnum á ári og er formennskuríkið Ísland áberandi að þessu sinni en auk utanríkisráðherra mun forseti Íslands ávarpa þingið síðar í vikunni.
Fyrr í dag átti Þórdís Kolbrún jafnframt fundi með Tiny Kox, forseta Evrópuráðsþingsins og Mariju Pejčinović Burić, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Í gær fundaði utanríkisráðherra með bandaríska fjárfestinum og mannréttindafrömuðinum Bill Browder og með þingmönnum í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
Í kvöld opnar utanríkisráðherra svo sérstaka móttöku sem haldin er í tengslum við sýnileikaviku lesbía (e. Lesbian Visibility Week) í Strassborg og á vettvangi Evrópuráðsins. Viðburðurinn er hluti af formennskuáætlun Íslands og var skipulagður með skrifstofu Evrópuráðsins um réttindi hinsegin fólks og hópi lesbískra aðgerðarsinna, EL*C.