Opið stríð að brjótast út innan verkalýðshreyfingarinnar
Það er alveg ljóst að opið stríð er að brjótast út innan verkalýðshreyfingarinnar eins og fram kom í fréttum RÚV í hádeginu í dag.
Það er að vísu ekkert nýtt þegar horft er til meira en hundrað ára sögu þessarar hreyfingar en það hefur hins vegar ekki gerzt með þessum hætti í nokkra áratugi.
VR treystir ekki forystu ASÍ.
Þetta styrjaldarástand hlýtur að ná inn á næsta ASÍ-þing (nema friðarsamningar hafi náðst fyrr) og jafnframt hafa áhrif á komandi kjarasamninga og flækja þá.
Og svo er auðvitað spurning hvort núverandi forysta ASÍ kýs að berjast eða víkja til hliðar með friðsamlegum hætti.
Erum við að læra af reynslunni?
Nú – eins og á árunum fyrir hrun – virðist allt leika í lyndi efnahagslega og í atvinnulífi. Þá var lítið sem ekkert hirt um hættumerki. Umræðurnar nú um þá atburði snúast m.a. um það hvort eitthvað hefði verið hægt að gera til að forða þeim, ef fyrr hefði verið gripið inn í.
Nú eru engar vísbendingar af því tagi, sem þá mátti sjá m.a. veturinn 2006 um að ekki sé allt með feldu.
En það má sjá viss hættumerki, m.a.í ferðaþjónustu, þar sem lagt hefur verið í gífurlegar fjárfestingar, sem álitamál er, hvort standist ef verulega hallar undan fæti. Og þá á það ekki bara við um fyrirtækin sjálf heldur líka þá, sem hafa séð um fjármögnun. Hver kaupir hótel, ef engir eru gestir?
En jafnframt eru augljós merki um það, að meiri brestur geti orðið á vinnumarkaði en orðið hefur áratugum saman. Gamalreyndur verkalýðsleiðtogi, Guðmundur Gunnarsson, spáir „heiftarlegum“ átökum á vinnumarkaði.
Þá má spyrja í ljósi fenginnar reynslu:
Hvað er ríkisstjórnin að gera til að koma í veg fyrir að þessi verði þróunin á vinnumarkaði og hefur hún látið greina hver raunveruleg staða ferðaþjónustunnar er, ef harðnar á dalnum?
Er ekki full ástæða til að læra af fenginni reynslu frá því fyrir rúmum 10 árum?
Segir Styrmir Gunnarsson, f.v. Ritstjóri Morgunblaðsins.
Discussion about this post