Undirritaður hefur verið samningur Akureyrarbæjar og Knattspyrnufélags Akureyrar (KA) um uppbyggingu íþróttamannvirkja á félagssvæði KA. Samningurinn er framhald af viljayfirlýsingu milli aðila sem var undirrituð í desember 2021.
Útbúinn verður upphitaður aðalkeppnisvöllur með gervigrasi og 800 LUX flóðlýsingu og öðrum búnaði sem stenst leyfisreglugerð Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) sem byggir á viðmiðunarreglum og kröfum leyfiskerfis Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA). Austan við keppnisvöllinn rís yfirbyggð stúka fyrir allt að 1.000 manns í sæti. Í stúkumannvirkinu verður áhaldageymsla fyrir félagssvæði KA, snyrtingar fyrir gesti, tæknirými fyrir keppnisvöll, æfingasalur, búningsklefi fyrir dómara, búningsklefi fyrir iðkendur/keppendur, aðstaða fyrir blaðamenn og söluafgreiðsla.
Á milli stúkumannvirkis og núverandi íþróttahúss verður reist um 1.600 m2 félagsaðstaða sem hýsir m.a. búningsklefa og júdósal. Með nýrri félagsaðstöðu verður til ný aðkoma með anddyri á norður- og suðurhliðum húss sem tengir saman núverandi íþróttahús KA og nýtt stúkumannvirki við aðalvöll. Á jarðhæð félagsaðstöðunnar verða sex búningsklefar, afgreiðsla og móttaka, salerni, kaffistofa starfsmanna, stjórnun fyrir mannvirkið og velli, tæknirými og geymslur auk lyftu milli hæða. Á efri hæð er gert ráð fyrir júdósal í fullri stærð, snyrtingum, tæknirýmum, skrifstofu fyrir KA, tvískiptum félagssal og eldhúsi.
Verklok fyrir keppnisvöllinn eru áætluð í júlí 2023 en fyrir félagsaðstöðu og stúlku í árslok 2028. Frágangur á lóð félagssvæðisins teygir sig til ársins 2030. Framkvæmdirnar eru á vegum Akureyrarbæjar sem stendur straum af kostnaði við þær og teljast mannvirkin eign sveitarfélagsins að framkvæmdum loknum. KA tekur þátt í verkefninu með vinnu við ýmis verkefni sem tengjast innréttingu á efri hæð félagsaðstöðu auk kaupa á búnaði í eldhús og félagssal á sömu hæð. Áætlaður kostnaður við keppnisvöllinn, stúkumannvirkið og félags- og búningsaðstöðuna er rúmlega 2,6 milljarðar á núverandi verðlagi.
Að neðan eru tölvugerðar myndir af fyrirhuguðum framkvæmdum.