Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir birti áhugaverðan pistil á síðu sinni um málefni lífeyrissjóða sem hafa verið mikið til umfjöllunar s.l. vikur:
Jæja nú get ég ekki lengur orða bundist eftir lestur á leiðara Fréttablaðsins þar sem ráðist er að forystu verkalýðshreyfingarinnar og látið í veðri vaka að hún vinni gegn hagsmunum lífeyrissjóðanna með því að segja fulltrúum sínum fyrir verkum inni í stjórnum sjóðanna. Tilefnið eru vandræði flugfélagsins Icelandair sem leiðarahöfundur virðist telja að kenna megi verkalýðshreyfingunni og afstöðu hennar í kjaraviðræðum. Í sama blaði er viðtal við Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóra þar sem hann fordæmir „skuggastjórnun“ í stjórnum lífeyrissjóðanna og segir að tryggja verði fullkomið „sjálfstæði“ stjórnanna til ákvarðana. Má af því skilja að verkalýðshreyfingin eigi ekki og megi ekki segja sínum fulltrúum fyrir verkum.
Ég tek að sjálfsögðu undir það sjónarmið að hagsmunir sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna hljóti alltaf að verða forgrunnur ákvarðanatöku í stjórnum sjóðanna. Að sjálfsögðu. En eru það hagsmunir sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna að bjarga flugfélagi sem er á leið í gjaldþrot og styðja um leið við það sem félagabrjót á vinnumarkaði? Eru það hagsmunir sjóðsfélaga að brjóta niður lögleg verkalýðsfélög og rjúfa um leið þau helgu vé sem umlukið hafa samningsréttinn á vinnumarkaði?
Leiðarahöfundur Fréttablaðsins í dag segir: „Forystufólk verkalýðshreyfingarinnar sem er hvað öðru vanstilltara í ofstæki sínu, hefur lagt sitt af mörkum í að leggja stein í götu björgunartilrauna flugfélagsins“. Hann krefst aðgerða gegn þessu forystufólki. Hann heimtar eftirmál! Og Ásgeir Seðlabankastjóri – hófstilltari í orðavali en á sömu nótum – vill breyta lögum.
Ja hérna!
En hvað með skuggastjórnun markaðsaflanna? Er hún ekki við lýði í stjórnum lífeyrissjóðanna? Hvað eru hótanir leiðarahöfundar og þrýstingur Seðlabankastjóra annað en tilraun til skuggastjórnunar?
Nei, gott fólk. Ég ætla rétt að vona að forysta verkalýðshreyfingarinnar og hennar fulltrúar í stjórnum lífeyrissjóðanna hrindi af sér þessum kúgunartilraunum og standi í lappirnar! Standi vörð um vinnuréttinn og eðlileg og siðleg vinnubrögð – standi þannig vörð um hagsmuni sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna! Þeir hagsmunir eru miklir og margslungnir.
Amen.
https://www.facebook.com/permalink.php?story_fbid=10222590781988669&id=1545379063