Fréttatíminn hefur að undanförnu verið að skoða starfsemi tryggingafélaga á Íslandi og m.a. borið þau saman við tryggingafélög í löndum sem að eru næst okkur og við erum vön að bera okkur saman við
Niðurstaðan hefur verið á þann veg að hæstu iðgjöld sem að fyrirfinnast, eru á Íslandi. Hægt er í sumum tilfellum að tryggja tvo til þrjá bíla fyrir sömu fjárhæð og íslensk tryggingafélög eru innheimta fyrir einn bíl á Íslandi.
Viðskiptamódel tryggingafélaganna á Íslandi virðast vera þannig að iðgjöld eru hækkuð á tryggingataka þegar að brask á hlutabréfamarkaði gengur illa en milljarða arðgreiðslur eru ætlaðar til hluthafa þegar að gengur vel. Iðgjöld eru ekki lækkuð, þau eru hækkuð en greiddur er út arður samtímis með blessun Fjármálaeftirlitsins. Uppsafnaður bótasjóður tryggingafélgana hefur að sama skapi verið ætlaður til þess að greiða hluthöfum út milljarða í arð en ekki í endurgreiðslur til viðskiptavina vegna oftekinna iðgjalda. Hávær mótmæli voru fyrir tveimur árum vegna yfirlýsinga tryggingafélaganna um útgreiðslu á hátt í 9 milljörðum króna til hluthafa.
Einstefnan virðist virka þannig að viðskiptavinirnir sem að greiða til tryggingafélaganna, hvort sem að þar er um bótasjóðinn að ræða eða iðgjöld, tapa alltaf. FÍB vill meina að viðskiptavinirnir eigi rétt á endurgreiðslu á ofteknum greiðslum til trygginga félaganna en svo virðist sem að það muni aldrei standa til.
Einnig hefur verið um að ræða milljarða arðgreiðslur til hluthafa úr bótasjóðum sem að safnast hefur upp á undanförnum áratugum með t.d. innheimtu of hárra iðgjalda íslenskra fyrirtækja og almennings. Eðlilega vakna reglulega upp spurningar um hvort að tryggingafélög eigi ekki bara að stunda tryggingastarfsemi. En ekki vera vogunarsjóðir og standa í áhættusömu og vafasömu braski á hlutabréfamarkaði, sem að hefur sannað það að hann óstöðugur og ótraustur og getur hrunið hvernær sem er. Eðlilegast væri að tryggingafélög leggðu spilin á borðið.
Einn forstjóri tryggingafélags skýrir stöðuna núna, þannig: ,,Tap félagsins á síðasta ársfjórðungi er „tilkomið vegna slæmrar afkomu af fjárfestingarstarfsemi og skýrist að langmestu leyti af tapi á hlutabréfasafni.“ Vegna neikvæðrar þróunar á verðbréfamarkaði voru horfur félagsins fyrir þetta ár því færðar úr 2,8 milljarða hagnaði fyrir skatta í 1 milljarðs hagnað.“ Í byrjun vikunnar reyndu hin sömu tryggingafélög að útskýra tap sitt á því að kostnaður vegna slysa væri svo mikill, það er alls ekki rétt. Iðgjöldin eru 2-3 sinnum hærri á Íslandi en í löndum þar sem að slysatíðni er miklu hærri. Neytendur munu alltaf greiða fyrir það tap sem að af miklu tjóni sem að getur orðið t.d. vegna hruns á hlutabréfamarkaði. Það verður í formi enn hærri iðgjalda Neytendur greiða fyrir tap á braski tryggingafélaganna ef að það tap er greitt niður með fjármunum úr t.d. bótasjóðnum sem að þeir eiga. Tryggingafélögin þrjú sem eru skráð í Kauphöllinni töpuðu öll á öðrum ársfjórðungi, rúmum milljarði.
Bílslysum hefur hlutfallslega fækkað
Á síðustu árum hefur bílum í umferð fjölgað töluvert eða um 19,3% á árunum 2013-2017 og hefur umferð þar af leiðandi þyngst. Slysum hefur fjölgað lítillega síðustu ár en ef horft er lengra aftur má sjá að slys eru færri í dag en 2004-2007 og eru þau svipað mörg í dag og þau voru árið 2009. Í hlutfalli af þeim bílum sem eru á götunum eru færri slys á hvern bíl í dag en fyrir 10 árum. Með fleiri bílum á götunum hefur iðgjaldastofn tryggingafélaganna einnig stækkað sem þýðir að tekjur tryggingafélaganna af bílatryggingum eru hærri í dag en áður fyrr auk þess sem meðalakstur dregst saman og hafa iðgjöld á hvern kílómetra því hækkað. (heimild: Samgöngustofa)
FÍB hefur bent á það ítrekað, að tryggingafélögin hafi verið að tæma bótasjóði viðskiptavina innan frá til þess að greiða út arð til hluthafa.
Hér að neðan er bréf til Bjarna Benediktssonar þar sem að málið er skýrt ítarlega fyrir um tveimur árum án þess að nokkuð hafi breyst. Einstakligar og fyrirtæki hafa ekkert frelsi á Íslandi til þess að velja sér tryggingafélag sem að innheimtir t.d. helmingi lægri iðgjöld eða meira, með því að versla við erlend tryggingafélög sem að bjóða upp á verð sem að innlend tryggingafélög þurfa ekki að keppa við. Skyldutrygging er bæði á bílum og húsnæði (brunatrygging) og fleiri tryggingum. En neytendur hafa ekkert val í þeirri fákeppninni og einokun sem er hér á landi og er vernduð með sérsniðnum lögum um tryggingafélög.
Milljarðar króna af ofteknum iðgjöldum frá neytendum, í sjóðum tryggingafélaga, greiðist út í arð til hluthafa, í stað þess að endurgreiða ofgreiðsluna til viðskiptavina
Bréfið er stílað á Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, þann 4. mars 2016
,,FÍB, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, hvetur ráðherra til að grípa tafarlaust til aðgerða til að stöðva yfirvofandi gripdeildir tryggingafélaga á sjóðum sem sannarlega eru í eigu viðskiptavina þeirra.
Ráðherra getur gripið inn í með því að gefa stjórn Fjármálaeftirlitsins fyrirmæli um að það sinni lögbundnu eftirlits- og aðhaldshlutverki sínu með tryggingafélögunum.
Þrjú tryggingafélög hafa kynnt fyrirætlanir um samtals 8,5 milljarða króna arðgreiðslur á næstu dögum. Fjármunina á að taka úr bótasjóðum sem tryggingafélögin hafa safnað með uppsprengdum iðgjöldum af ofáætluðum tjónum. Þessir bótasjóðir eru skuld (tjónaskuld) við tryggingataka. Þeim er ætlað að mæta tjónagreiðslum, ekki arðgreiðslum.
Tryggingafélögin ætla að nýta sér nýja reikningsskilaaðferð Evrópusambandsins, sem ekki hefur verið innleidd hér á landi, til að tæma bótasjóðina. Fjármálaeftirlitið hefur engar athugasemdir gert við þessar fyrirætlanir, þrátt fyrir að stofnunin sé skyldug til að gæta hagsmuna viðskiptavina tryggingafélaganna og tryggja að þau starfi í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.
Í gegnum tíðina hefur FME litið velþóknunaraugum á oftöku iðgjalda tryggingafélaganna og óhóflega sjóðasöfnun. Nú ber svo við að samkvæmt hinni nýju reikningsskilaaðferð á að flytja tryggingaáhættu að mestu úr bótasjóðunum yfir í eigið fé tryggingafélaganna. Þar sem eigið fé félaganna stendur undir gjaldþolskröfum reikningsskilaaðferðarinnar telur FME ekkert því til fyrirstöðu að eigendur tryggingafélaganna tæmi bótasjóðina og stingi þeim í eigin vasa. Um leið segist FME reyndar hafa áhyggjur af því að iðgjöld tryggingafélaganna séu ekki nógu há og hvetur þau til „viðeigandi aðgerða.“
Stjórnvöld og almenningur geta lítið gert til að hafa áhrif á græðgi eigenda tryggingafélaganna annað en fordæma þessa sjálftöku. Undir eðlilegum kringumstæðum væri haldreipi í Fjármálaeftirlitinu. Svo er þó ekki. FME virðist eingöngu hugsa um hag fjármálafyrirtækja og fjárfesta. Ljóst er að stjórnvöld þurfa að hrista upp í Fjármálaeftirlitinu með afgerandi hætti til að það átti sig á skyldum sínum við almenning.
Óþolandi er að tryggingafélögin fái að eigna sér fjármuni sem þau hafa hirt af tryggingatökum með ofteknum iðgjöldum í skjóli fáokunar. Óþolandi er að þetta eigi að líðast með velþóknun þeirrar eftirlitsstofnunar sem á að gæta hagsmuna viðskiptavina tryggingafélaganna.
FME hefur ríkar heimildir til að hlutast til um fjármál og rekstur tryggingafélaganna. FME getur skipað þeim að endurgreiða tryggingatökum eign þeirra í bótasjóðunum eða nota fjármunina til að lækka iðgjöld næstu árin. Ef FME ætlar að láta þetta óátalið, þá yrði það í annað sinn á einum áratug sem stofnunin horfir aðgerðalaus á eigendur tryggingafélaga tæma bótasjóðina. Virðingarfyllst f.h. FÍB, Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri“
Háar arðgreiðslur til hluthafa á sama tíma og iðgjöld á almenning hækka
Miklar verðhækkanir hafa orðið á bílatryggingum undanfarin ár en á tímabilinu 2014-2018 (apríl-apríl) hafa tryggingar hækkað um 24% á meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um 7,38% og er þetta því um 16,5% hækkun umfram almennar verðlagshækkanir.
Ýmsir ytri áhrifaþættir eru þó hagstæðir fyrir tryggingafélögin eins og miklar verðlækkanir á bílum (-13%) og varahlutum (-21%) auk þess sem umferðaslysum fer fækkandi. Þrátt fyrir þetta sjá tryggingafélögin ástæðu til að hækka verð á bílatryggingum en greiða á sama tíma út milljarða í arðgreiðslur.
Verð á bílum og varahlutum lækkar en verð á bílatryggingum hækkar
Styrking á gengi krónunnar hefur leitt til þess að verð á bílum hefur lækkað um 13,28% og verð á varahlutum um 21,93% frá árinu 2014 en verð á bílum og varahlutum eru meðal þeirra þátta sem hafa áhrif á verð bílatrygginga. Það vekur því athygli hversu hratt tryggingar hafa hækkað á undanförnum árum miðað við þróun þessara áhrifarþátta. (heimild: Hagstofa)
Mikill hagnaður og háar arðgreiðslur
Hagnaður tryggingafélaganna hleypur á milljörðum á hverju ári sem og arðgreiðslur til hluthafa. Viðskiptavinir tryggingafélaganna fá ekki að njóta góðs af jákvæðri afkomu tryggingafélaganna heldur rennur jákvæð afkoma beint í vasa hluthafa á sama tíma og viðskiptavinir sjá verðin hækka ár hvert. Hér má sjá hagnað tryggingafélaganna í milljónum króna síðustu ár:
Iðgjöld bílatrygginga hækka með velþóknun Fjármálaeftirlitsins
Félag íslenskra bifreiðaeigenda segja frá því á síðu sinni í þessum mánuði að á síðastliðinum fjórum árum hafi iðgjöld lögboðinna ökutækjatrygginga hækkað um 25%. Á sama tíma hafi vísitala neysluverðs hækkað um 7% og verð nýrra bíla lækkað um 13%.
Fréttatíminn fór ofan í saumana á tryggingamálum og bar m.a. saman verð á tryggingum á Íslandi og í nágrannalöndunum fyrr í sumar og birti um það grein og munurinn var heldur betur sláandi. Verðið gat verið helmingi hærra á Íslandi og stundum þrefalt hærra. M.ö.o. Fjölskylda með 2-3 bíla í nágrannalöndunum greiddi jafn mikið og íslensk fjölskylda greiðir fyrir einn bíl. Það eru greinilega önnur markaðslögmál þar en á Íslandi.
Það virðist vera þannig þegar að kemur að þessum málum að endalaust er hægt að láta bifreiðaeigendur á Íslandi greiða margfalt meira þegar að kemur að kostnaði varðandi bifreiðar en þekkist annarsstaðar í veröldinni. Bensín- og tryggingasalar eru mjög samstíga á Íslandi þegar að kemur að okri gagnvart bíleigendum þegar að verð eru borin saman og líta verður til þess í þeim kjaraviðræðum sem að nú standa yfir, þar sem að verðhækkanir hafa ekki verið í neinum takti við launavísitölu. En mikil ólga er í samfélaginu vegna kjaramála og búast má við verkföllum og átökum á vinnumarkaði eins og boðað hefur verið.” Þetta kom fram í grein FT fyrr í sumar.
Einnig kom fram að á sama tíma og miklar hækkanir voru á bílatryggingum, voru tryggingafélögin að greiða út veglegan arð til eigenda. ,, Á sama tíma eru Tryggingafélög einnig að okra á bíleigendum upp á hundruð prósenta m.v. nágrannalöndin og greiða út háan arð á sama tíma og tryggingar hafa verið að hækka langt umfram verðlag.” Sagði m.a. í grein FT.
,,Bílum hefur fjölgað og þar með greiddum iðgjöldum. Eknum kílómetrum hefur hins vegar fækkað. Tjónakostnaður hefur lækkað með verðlækkun bíla og varahluta og það vegur uppá móti hækkun slysa-bóta.
Fjármálaeftirlitið er enginn vinur neytenda í þessum efnum. Það lyftir ekki putta til að gera athugasemdir við iðjaldahækkanir. Þvert á móti hvatti það tryggingafélögin til þess að hækka iðgjöldin árið 2015. Ekki stóð á félögunum að bregðast við þeirri áskorun, eins og raunin sýnir.” Segir á vef FÍB um málefni tryggingafélaga og til þess að átta sig betur á þessari starfsemi tryggingafélag á Íslandi er líka ágætt að lesa skýringar sem að komu fram á vef fíb í mars 2016. Auðvitað væri best að fara nákvæmlega ofan í þessi mál og velta við hverjum steini enda eiga neytendur fullan rétt á því að fá allar upplýsingar um hvað þeir eru raunverulega að borga fyrir þegar að kemur að greiðslu á dýrum tryggingum og einnig um uppsafnaðan bótasjóð sem að neytendum finnst að þeir eigi að fá greiddan til baka í ofgreiddar tryggingar um áratuga skeið.
Hver er raunverulegur eigandi bótasjóðanna?
Gagnrýni FÍB á arðgreiðsluáform þriggja tryggingafélaga hefur vakið verðskuldaða athygli. Félögin ætla að greiða margfaldan hagnað sinn í arð til eigenda með því að tappa af bótasjóðunum (sem líka kallast tjónaskuld). En hver á þessa bótasjóði? Hafa tryggingafélögin rétt til að nota þá í arðgreiðslur? Um þetta og sitthvað fleira tengt málinu er spurt og svarað hér á eftir:
Hvers vegna gagnrýnir FÍB Fjármálaeftirlitið (FME) fyrir græðgi tryggingafélaganna?
FME er skylt samkvæmt lögum og eigin markmiðum að gæta hagsmuna almennings gagnvart tryggingafélögunum. FME er eini aðilinn sem hefur völd til að taka í taumana. Það lyftir hins vegar ekki litla fingri til að stoppa gripdeildir tryggingafélaganna úr bótasjóðunum. Þess vegna er FÍB að brýna fjármálaráðherra til hundskamma stjórn FME, svo stofnunin standi einu sinni með fólkinu í landinu.
Forstjóri FME segir að gagnrýni FÍB sýni vanþekkingu – er það rétt?
Það þýðir ekkert fyrir forstjóra Fjármálaeftirlitsins að vera með svona almenna fullyrðingu án þess að rökstyðja hana frekar – sem hún hefur ekki gert. Forstjórinn segir að FME viti nákvæmlega hvernig reikningarnir standi hjá tryggingafélögunum og þau hafi ekki tæmt bótasjóðina í arðgreiðslur. FÍB hefur ekki haldið því fram að félögin hafi tæmt sjóðina, heldur að þau séu að byrja að tæma úr þeim (2016).
Hvað telur FÍB athugavert við arðgreiðslur tryggingafélaganna?
Þau eru að notfæra sér breytingar Evrópusambandsins á fyrirkomulagi reikningsskila tryggingafélaganna (kallað Solvency 2). Með þessum breytingum á eigið fé tryggingafélaganna að mæta áhættu vegna tryggingastarfseminnar. Ekki þarf lengur bótasjóði til að mæta tjónsáhættu. Eiginfjárstaða tryggingafélaganna er firnasterk þannig að þau eru reiðubúin. En um leið þykjast þau hafa frjálst spil með bótasjóðina, ýmist til að ávaxta þá eða greiða út sem arð. En bótasjóðirnir eru ekki eign tryggingafélaganna, þeir eru eign tryggingataka. Tryggingatakar hafa byggt þessa bótasjóði upp með álagi á iðgjöldin. Úr því að ekki er lengur þörf fyrir bótasjóðina, þá ber tryggingafélögunum að skila þessum fjármunum til tryggingataka, t.d. með því að nota sjóðina í tjónagreiðslur, fremur en nota þá í arðgreiðslur.
Hver á bótasjóðina?
Best er að vísa í eigin orð forstjóra tryggingafélaganna um þetta efni. Í viðtali við Morgunblaðið 12. ágúst 1995 sögðu þrír þeirra einum rómi að að fjármunir í bótasjóðum væru í raun „eign“ tjónþola og skuld tryggingafélaganna (Morgunblaðið setti gæsalappir utan um orðið eign, væntanlega til að undirstrika sérstöðu eignarinnar). Tryggingafélög leggi fjármuni til hliðar og ávaxti þá til að mæta óuppgerðum skuldbindingum. „Bótasjóðurinn er „eign“ tjónþola en ekki tryggingafélaganna,“ sagði Einar Sveinsson, þáverandi forstjóri Sjóvár.
Með öðrum orðum, tryggingafélögin eiga ekki krónu í bótasjóðunum. Með Solvency 2 reikningsskilaaðferðinni er ekki lengur gerð krafa um bótasjóði til að mæta áhættu tryggingafélaganna, heldur nægir eigið fé þeirra. Af því leiðir að tryggingafélögin eiga að skila þessum fjármunum til baka. Þau geta t.d. notað bótasjóðina í það sem þeim var upphaflega ætlað, þ.e. að greiða tjón. En þau hafa engan rétt til að nota þá í arðgreiðslur.
Hvað er um háar fjárhæðir að ræða?
Sem dæmi má nefna að í bílatryggingum standa bótasjóðir tryggingafélaganna samtals í 27 milljörðum króna. Núna ætla þrjú tryggingafélög að greiða 8,5 milljarða króna í arð, þrátt fyrir að hagnaður þeirra árið 2015 hafi verið 5,6 milljarðar króna. Það er sjaldgæft að allur hagnaður sé greiddur í arð, hvað þá að allur hagnaður og 3 milljarðar króna til viðbótar fari í arðgreiðslur. Tryggingafélögin ganga á bótasjóðina til að borga þennan arð. Og það skal enginn halda að þetta eigi ekki eftir að endurtaka sig næstu árin þangað til búið verður að tæma sjóðina.
Er ekki of seint fyrir FME að taka í taumana?
Fjármálaeftirlitið hefur árum saman vitað hvað var í vændum, ekkert síður en tryggingafélögin. Breytingar á reikningsskilum tryggingafélaganna (Solvency 2) hafa verið yfirvofandi í 6-7 ár og FME hefur haldið utan um þá innleiðingu. Fyrst átti hún að eiga sér stað 2013 en var frestað fram á þetta ár. Allan tímann hefur verið vitað að geta tryggingafélaganna til að mæta bótakröfum yrði byggð á eiginfjárstöðu þeirra en ekki bótasjóðum. Úttekt á stöðu félaganna fyrir 5 árum sýndi að þau höfðu öll mjög hátt gjaldþolshlutfall (nógu góða eiginfjárstöðu til að standa undir breyttum reglum). Strax þá gat FME farið að skipuleggja með tryggingafélögunum hvernig bótasjóðunum yrði ráðstafað, annað hvort með endurgreiðslu þeirra til tryggingataka eða lækkun iðgjalda. En þess í stað hafa bótasjóðirnir fengið að halda sér. Tryggingafélögin hafa grætt vel á ávöxtun þeirra og ætla nú að fara að dæla þeim út til eigenda sinna. Allt er það með velþóknun Fjármálaeftirlitsins.
Er ekki einfaldast að hætta bara í viðskiptum hjá gráðugu tryggingafélögunum?
Og tryggja hvar? Þrjú af fjórum tryggingafélögum hafa upplýst að þau ætli að greiða sér arð langt umfram hagnað. Þetta eru VÍS, TM og Sjóvá. Þá er bara Vörður eftir, en það félag hefur ekki upplýst ennþá hvaða tillögur verði gerðar um arðgreiðslur á aðalfundi. Tryggingamarkaðurinn hér á landi einkennist af fáokun með tilheyrandi skorti á samkeppni. Helst er að vænta eitthvað betri kjara með því að óska árlega eftir tilboði í tryggingar frá öllum tryggingafélögunum. Þannig tekst stundum að lækka iðgjöldin lítillega. En þeir sem ekki gera það og halda bara áfram að borga fá enga lækkun. Þannig „verðlauna“ tryggingafélögin fasta viðskiptavini.
Er einhver skýring á linkind FME við tryggingafélögin?
Meginhlutverk Fjármálaeftirlitsins er að gæta þess að fjármálafyrirtæki starfi með eðlilegum hætti. Í því felst að FME á að gæta hagsmuna viðskiptavina fyrirtækjanna og almennings. FME virðist hins vegar einblína á það að fjármálafyrirtækjum (þar á meðal tryggingafélögum) gangi sem allra best, sama þó það komi niður á hagsmunum viðskiptavina. Þetta birtist t.d. í ofurgjöldum sem bankar komast upp með að leggja á viðskiptavini, vaxtaokri, samræmdri verðskrá og öðrum ráðstöfunum til að hafa tugmilljarða króna hagnað. Þetta birtist í aðgerðaleysi gagnvart gripdeildum tryggingafélaganna á bótasjóðunum. Svo virðist sem FME líti á sig sem hlekk í því að fjármálakerfið hagnist sem mest, fremur en útvörð almennings.
Mér sýnist á öllu að eitthvað mikið sé að í íslensku þjófélagi þegar að kemur að tryggingafélögum á Íslandi og í raun og veru ætti að fara fram opinber rannsókn á þeim öllum strax í dag. Í kjölfarið ætti að grípa til aðgerða og vinda ofan af því sem að ekki er í lagi í rekstri þeirra þ.m.t. brask með oftekna fjármuni frá almenningi.
Lífeyrissjóðir fólksins í landinu eiga einn þriðja í tryggingafélögunum og þeir sitja hjá á meðan við erum látin borga allt að þrefalt hærra gjald fyrir tryggingar en í nágrannalöndunum. Það þarf að fara að taka á spillingunni á Íslandi og þá er ég ekki að meina að búa til skýrslur um svínaríið og svo ekkert gert í málinu eins og er lenskan.
Jón Magnússon, f.v. frkv.stj.