Bið eftir þjónustu: Tölur uppfærðar 9. september 2024.
Mikil aukning hefur verið á eftirspurn eftir geðheilbrigðisþjónustu við börn undanfarin ár. Þrátt fyrir hraða uppbyggingu þjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur bið eftir þjónustu aukist.
Eins og fram kemur í samantekt Umboðsmanns barna hefur börnum sem bíða eftir þjónustu hjá Geðheilsumiðstöð barna (GMB) fjölgað. Í ágúst 2024 biðu 2020 börn hjá GMB samanborið við 738 í desember 2021. Miðstöðin sinnir greiningu, ráðgjöf og meðferð vegna geð- og þroskavanda barna og unglinga að 18 ára aldri. Hún heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en starfar á landsvísu.
Umboðsmaður barna birtir nú í sjötta sinn upplýsingar um bið barna eftir þjónustu.
Löng bið eftir þjónustu við börn hefur verið viðvarandi vandamál til margra ára. Með það að markmiði að varpa ljósi á raunverulega stöðu barna hefur umboðsmaður barna, frá því í desember 2021, staðið fyrir reglulegri upplýsingaöflun um þann fjölda barna sem bíður eftir þjónustu hjá tilteknum aðilum.
Samstarfsaðilar verkefnisins eru Barna- og fjölskyldustofa, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Geðheilsumiðstöð barna, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Barna- og unglingageðdeild LSH, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Heilsuskóli Barnaspítalans og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.
Umboðsmaður barna starfar samkvæmt lögum um umboðsmann barna nr. 83/1994 og hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi barna. Liður í því er að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila. Hluti af þeirri vinnu er að gera aðgengilegar á einum stað upplýsingar um þann fjölda barna sem bíður eftir tiltekinni þjónustu hverju sinni. Upplýsingarnar eru uppfærðar á sex mánaða fresti til að fylgjast með þróuninni.
Það er von umboðsmanns barna að birting þessara upplýsinga muni varpa ljósi á raunverulega stöðu barna í íslensku samfélagi og verði stjórnvöldum hvatning til aðgerða og úrbóta. Söfnun og birting upplýsinganna er jafnframt liður í því hlutverki umboðsmanns að stuðla að frekari innleiðingu Barnasáttmálans.
Skýrsla um samanburð á milli ára – útgefin 26. febrúar 2024.