Bandarískar orrustuþotur voru sendar á loft í gærkvöldi eftir að vart varð við tvær rússneskar langdrægar sprengjuflugvélar auk tveggja orrustuþota. Sprengjuflugvélarnar voru af gerðinni Tu-95 og orrustuþoturnar af gerðinni Su-35.
Var þeim flogið innan loftvarnarsvæðis Alaska, sem er alþjóðlegt loftrými sem liggur að lofthelgi Bandaríkjanna og Kanada. Greint er frá málinu á fréttavef mbl.is og þar segir jafnframt:
Fjórar F-16 í loftið
Brugðust Bandaríkin við með því að senda eftirlits- og stjórnflugvél af gerðinni E-3, ásamt fjórum F-16-orrustuþotum og fjórum KC-135-eldsneytisáfyllingarvélum, „til að bera örugglega kennsl á og stöðva“ rússnesku flugvélarnar, að þvi er segir í tilkynningu NORAD, loftvarnaeftirlits Bandaríkjanna og Kanada.
Þar er tekið fram að hernaðarumsvif Rússa á loftvarnarsvæðinu séu algeng og ekki talin ógn.
Þó er um að ræða enn eina flugferð rússneskra flugvéla sem margir telja að séu til þess fallnar að kanna viðbúnað Bandaríkjanna og bandalagsþjóða þeirra í NATO, eins og segir í umfjöllun CBS. Á sama tíma urðu fleiri flugvellir í Danmörku fyrir truflunum af völdum drónaflugs í gærkvöldi, sem varnarmálaráðherrann skilgreinir sem fjölþátta árás á landið.