Héraðssaksóknari vill yfirheyra persónur og leikendur í Samherjamálinu úti í Namibíu áður en hann getur lokið rannsókn sinni, sem hefur staðið í fjögur ár og hann kallar stærstu spillingarrannsókn Íslandssögunnar. Fjallað var ítarlega um málið hjá ríkisútvarpinu.
Héraðssaksóknari hefur fengið gögn frá namibískum yfirvöldum sem breyta miklu fyrir rannsóknina á Samherjamálinu, sem hann kallar stærstu spillingarrannsókn Íslandssögunnar.
Í bréfinu segir að Samherjamálið sé stærsta spillingarmál sem nokkru sinni hefur verið rannsakað á Íslandi. Það snýst um meint peningaþvætti, auðgunarbrot og hundraða milljóna mútugreiðslur til Namibíumanna til að koma höndum yfir kvóta þar ytra sem metinn hefur verið á milljarða króna.
Gögnin voru fjölmörg, meðal annars bankaupplýsingar um átta félög tengd Samherja og sextán önnur namibísk félög sem tengjast málinu, bakgrunnsupplýsingar um tíu Namibíumenn, og auk þess kynstrin öll af öðrum gögnum og upplýsingum, afrit af símum og tölvum sem lagt var hald á, greiðsluupplýsingar og ársreikningar, samningar, vitnaskýrslur og upplýsingar um kvótaúthlutanir.
Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, segir að verið sé að fara yfir gögnin núna, að sögn ríkisútvarpsins.