Hæstiréttur kvað upp dóm þann 18. nóvember s.l. í máli þar sem reyndi á hvort ákvæði 193. gr. almennra hegningarlaga yrði beitt gegn móður sem hafði á tilgreindu tímabili svipt tvo barnsfeður sína valdi og umsjá barnanna með því að fara með þau úr landi án leyfis og vitundar barnsfeðranna.
Lagt var til grundvallar í málinu að forsjá foreldra beggja barna væri sameiginleg og höfðu þau lögheimili hjá móður. Í fyrrgreindu refsiákvæði segir að hver sem sviptir foreldra eða aðra rétta aðila valdi eða umsjá yfir barni sem er ósjálfráða fyrir æsku sakir, eða stuðlar að því að það komi sér undan slíku valdi eða umsjá, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt.
Ekki hafði áður reynt á beitingu ákvæðisins við þær aðstæður þegar forsjá foreldra er sameiginleg en í máli nr. 206/2005 hafði rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að refsivert væri fyrir það foreldri, sem ekki fer með forsjá barns, að fara með það af landi brott og halda því þar.
Hæstiréttur benti á að í 3. mgr. 28. gr. a barnalaga væri mælt fyrir um einkaréttarlegt úrræði til handa foreldri sem telur á sér brotið með flutningi hins foreldrisins á barni þeirra milli landa.
Ákvæði 193. gr. almennra hegningarlaga væri hins vegar refsiákvæði sem væri einskorðað við brot gegn foreldravaldi yfir barni. Þá væri ljóst af ákvæðum barnalaga og lögskýringargögnum að það foreldri sem barn væri með lögheimili hjá hefði ríkari rétt til að taka ákvarðanir um málefni þess. Með vísan til umfjöllunar um refsinæmi 193. gr. almennra hegningarlaga, inntaks sameiginlegrar forsjár og þeim kröfum sem gerðar eru til skýrleika refsiheimilda var það niðurstaða dómsins að sýkna ákærðu af kröfum ákæruvaldsins.
Dóminn má í heild sinni lesa [hér].