Eftir að hafa hlustað á málflutning Eyjólfs Ármannssonar hjá Flokki fólksins er mér algjörlega misboðið, þar sem hann talar um orkumál, efst á blaði er að virkja i Vatnsfirði á Barðaströnd.
Hann segir í viðtali í útvarpinu að jarðrask sé bara örfáar birkihríslur sem munu fara og engin sakna, en samt erum við að tala um friðland, sem hann segir vera barn síns tíma. Aðeins einhver gamalmenni sem vilja ekki að virkjað sé í friðlandinu.
En þarna var haldin þjóðhátið vestfirðinga árið 1974, skyldi ekki fegurðin og ylmandi birkið í stæsta skógi Vestfjarða hafa ráðið staðarvali fyrir þessa stóru þjóðhátið 1974?
Já, við erum að tala um þjóðhátíð 1974 sem verður væntanlega endurtekin 2074. Ætlar þessi flokkur að eyðileggja þjóðhátíðarsvæðið? Hvað næst? Á þá ekki bara að fylla Herjólfsdal af vindmyllum? Það er á pari við þessi áform, þó áformin um að drekkja Vatnsfirði með lóni, hafi óafturkræf áhrif til eilífðar.
Ég mun kalla þetta fólk sem hugsar svona og ætlar að framkvæma þennan gjörning, siðblindra náttúruníðinga og hafið ævarandi skömmm fyrir.
Til fróðleiks, læt ég hér fylgja upplýsingar um þessa eina mestu náttúruperlu landsins og kannski rétt fyrir fólk sem telur sig sjálfskipað til að hugsa fyrir fólkið í landinu og komandi kynslóðir að reyna að kynna sér málið.
Þjóðhátíð Vestfirðinga 1974
Árið 1974 fagnaði þjóðin 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Á Vestfjörðum var blásið til mikillar hátíðar dagana 13.-14. júlí hér í Vatnsfirði. Samkvæmt fréttum dagblaða þess tíma sóttu um 10-12.000 gestir hátíðina heim en veðrið var með eindæmum gott. Þjóðhátíðarnefnd beindi þeim tilmælum til fyrirtækja og stofnana í fjórðungnum að allt yrði lokað föstudaginn 12. júlí svo gestir gætu komið sér vel fyrir tímanlega.
Dagskráin var fjölbreytt en meðal atriða má telja hátíðarræður, kórsöng, leiksýningar, íþróttasýningar, alls kyns tónleika, dansleiki, guðsþjónustu, siglingar á Vatnsdalsvatni, gamanmál og fleira. Meðal þeirra sem komu fram voru Halli og Laddi, Ómar Ragnarsson, hljómsveitin B.G og Ingibjörg, Bryndís Schram, Guðmundur G. Hagalín og fleiri.
Hver sýsla á Vestfjörðum hafði sitt afmarkaða tjaldstæði með hliði sem merkt var tákni héraðsins, bílastæði voru fyrir um 2000 bíla, minjagripir voru framleiddir, pósthús starfrækt á hátíðarsvæðinu og matvælaverslun með helstu nauðsynjar. Þátttökugjald var 2000 krónur fyrir einstakling. Danspallar voru á svæðinu þar sem hljómsveitir spiluðu. Víkingaskip sigldi inn Vatnsdalsvatn með Hrafna- Flóka í stafni, sem sleppti hrafni frá skipinu, en um var að ræða sögulegan þátt sem saminn hafði verið af þessu tilefni. Útimessa var haldin þar sem allir prestar fjórðungsins þjónuðu og voru tvö brúðhjón gefin saman. Ætla má að meirihluti íbúa á Vestfjörðum hafi verið í Vatnsfirði sem og brottfluttir ásamt öðrum gestum. Hátíðin þótti einstaklega vel heppnuð og hefur líklega átt þátt í því að Vatnsfjörður var friðaður ári síðar.
Meðferð áfengis var bönnuð á hátíðinni en haft er fyrir satt að ýmis ráð hafi verið með að koma vökva á tjaldstæðið, m.a. mun fólk hafa lagt það á sig að ganga yfir grýtt fjöll til að leika á lögregluna sem og að grafa áfengi á svæðinu áður en hátíðin byrjaði. Margir þeirra sem voru á hátíðinni kunna frá þessu að segja.
Aldrei hefur slíkur fjöldi komið saman í Vatnsfirði síðan og í dag er rólegt um að litast á svæðinu þar sem tjaldað var í Vatnsdal og nú gista tjaldgestir á skipulögðu tjaldstæði við Flókalund. Hátíðin varð til þess að vekja verðskuldaða athygli á Vatnsfirði, gæðum landsins, sögu og verðmæti. Í ágúst 1974 hélt Náttúruverndarráð fund í Flókalundi þar sem tillaga að verndun fjarðarins var rædd og hann var svo friðlýstur í mars 1975.
Ljósmyndir: Guðmundur Sveinsson frá Góustöðum