Áframhaldandi og öflugri stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu og aukið samstarf Norðurlandanna á sviði öryggis- og varnarmála voru helstu umræðuefni fundar varnarmálaráðherra norrænu ríkjanna.
Auk fundar í norræna varnarsamstarfinu, NORDEFCO, áttu ráðherrarnir sömuleiðis fund með Eystrasaltsríkjunum og Norðurhópnum svokallaða, þar sem Bretland, Þýskaland, Pólland og Holland eiga sæti. Þá tók Rustem Umerov, varnarmálaráðherra Úkraínu, einnig þátt í hluta fundanna.
Í ljósi nýlegra atburða í Eystrasalti ræddu ráðherrarnir jafnframt fjölþáttaárásir og þörfina á að efla viðbúnað og viðbrögð við árásum á mikilvæga neðansjávarinnviði. Þá var rætt um stöðu mála í Úkraínu, horfur fyrir komandi ár og áframhaldandi stuðning Norðurlandanna og annarra samstarfsríkja við varnarbaráttu úkraínsku þjóðarinnar.
Á fundi norrænu ráðherranna var farið yfir innleiðingu á nýrri langtímasýn fyrir NORDEFCO samstarfið, Vision 2030, sem miðar að því að efla samstarf ríkjanna í varnarmálum og styrkja framlag þeirra á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Þá var undirrituð viljayfirlýsing um að samræma flutningsleiðir milli Norðurlandanna til að greiða fyrir flutningi og för herafla á milli ríkjanna.
Fundirnir fóru fram dagana 20.-21. nóvember í Kaupmannahöfn, en Danmörk fer með formennsku í norræna varnarsamstarfinu í ár. Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins sótti fundina í fjarveru utanríkisráðherra.