Það mátti greina í gær vissa bjartsýni um að takast megi að leysa kjaradeilur án harkalegra átaka á vinnumarkaði eftir að víðtækt samkomulag náðist um aðgerðir í húsnæðismálum. Það á að vísu eftir að útfæra þær hugmyndir og fjármagna en kjarni málsins er þó sá, að húsnæðismálin ein leysa ekki þessar deilur.
Það liggur ekkert fyrir um að sjónarmið atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar varðandi launahækkanir séu að nálgast og nokkuð ljóst að innan stjórnarflokkanna verða skiptar skoðanir um hugmyndir ASÍ í skattamálum.
Telja má víst að Sjálfstæðisflokkurinn muni eiga erfitt með að kyngja skattahækkunum svo að dæmi sé nefnt.
Víðtækt samkomulag um aðgerðir í húsnæðismálum er jákvætt og eykur bjartsýni en er þó aðeins eitt skref af mörgum, sem taka verður áður en sést til lands í þessari kjaradeilu.
Húsnæðismálin: Skref í rétta átt

Viðbrögð allra þeirra, sem hlut eiga að máli við þeim tillögum, sem kynntar voru í gær um aðgerðir í húsnæðismálum benda eindregið til að þær séu skref í átt til þess að tryggja farsæla lausn kjaradeilna. Að vísu bara skref en augljóslega mikilvægt. Útfærslan er eftir.
Það eru margir þættir, sem koma inn í þær kjaraviðræður, sem nú standa yfir en augljóslega jákvætt að víðtæk samstaða hefur tekizt um einn mikilvægasta þáttinn.
Vonandi verður það samningamönnum og stjórnvöldum hvatning til að taka djarfar ákvarðanir á öðrum sviðum.
Þetta skref hlýtur að auka bjartsýni um framhaldið.
Frakkland: Gulu vestin hverfa ekki – birtast þau hér?
Gulu vestin hverfa ekki af götum Parísar og annarra franskra borga. Þó hafa þau þegar náð umtalsverðum árangri vegna þess að Macron, Frakklandsforseti, hörfaði með stefnumál sín snemma í þessu ferli. Að þau skuli mótmæla viku eftir viku þrátt fyrir það er vísbending um mjög djúpa og víðtæka óánægju í frönsku samfélagi.
Macron er að leggja af stað í margra vikna ferðalag um Frakkland til Þess að tala við fólk og hlusta á fólk að hans sögn. Hann ætlar að standa fyrir eins konar Þjóðarumræðu. Það er skynsamlegt af hans hálfu og mættu fleiri kjörnir forystumenn fylgja því fordæmi.
Vandinn í vestrænum lýðræðisþjóðfélögum er alls staðar sá sami. Hin nýja stétt, sem Milovan Djilas, greindi í kommúnistaríkjunum fyrir meira en hálfri öld og saman stóð af ráðamönnum kommúnistaflokkanna og embættismanna í þeim ríkjum notaði aðstöðu sína sjálfri sér í hag.
Nú er það sama að gerast með ýmsum hætti í lýðræðisríkjum Vesturlanda. Hér er það fyrirbæri kennt við Kjararáð.
Það verður fróðlegt að sjá, hvort gul vesti birtast hér á næstuvikum.“ Segir Styrmir Gunnarsson f.v. ritstjóri Morgunblaðsins í skrifum um þjóðmál.