Þann 12. nóvember sl. óskaði forsætisráðherra eftir greinargerð bankaráðs Seðlabanka Íslands um mál Samherja hf. í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 463/2017. Í dómnum var staðfest niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um að fella úr gildi ákvörðun Seðlabanka Íslands frá 1. september 2016 um að Samherji hf. skuli greiða 15 millj. kr. í stjórnvaldssekt til ríkissjóðs vegna brota gegn 12. gr. reglna nr. 880/2009 um gjaldeyrismál og 12. gr. reglna nr. 370/2010 um gjaldeyrismál, sbr. bráðabirgðaákvæði I laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, með síðari breytingum.
Umbeðin greinargerð hefur nú borist forsætisráðuneytinu og er hún hér með gerð opinber. Vakin er athygli á því auðkenni lögaðila og einstaklinga annarra en Samherja hf. hafa verið afmáð úr greinargerðinni.
Forsætisráðuneytið mun á næstu vikum leggja mat á efnisatriði greinargerðarinnar og hvort tilefni sé til þess m.a. að óska eftir frekari gögnum og skýringum frá bankanum. Forsætisráðuneytið mun jafnframt hafa greinargerðina til hliðsjónar í yfirstandandi vinnu við endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands vegna fyrirhugaðrar sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.
Greinagerð bankaráðs Seðlabanka Íslands