Mikill viðbúnaður var hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra í vikunni í kjölfar þess að heimagerð sprengja var sprengd í Ólafsfjarðargöngum. Tjón af völdum sprengingarinnar er talið nema milljónum króna og orsakaði meðal annars ljósleysi í Ólafsfjarðargöngum.
Málið er litið alvarlegum augum. Lögreglan naut aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og sprengjusérfræðinga hennar við framkvæmdir á húsleitum á Ólafsfirði á miðvikudag. Fjórir voru handteknir vegna málsins bæði í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og lögreglustjórans á Suðurnesjum.
Aðgerðirnar voru hluti af rannsókn lögreglunnar á athæfi sem hefur í för með sér almannahættu. Málsatvik liggja að mestu fyrir eftir skýrslutökur hjá lögreglunni á Akureyri og á Suðurnesjum en frekari rannsókn stendur yfir. Fólkinu sem allt er á fertugs- og fimmtugsaldri hefur verið sleppt úr haldi lögreglu.
Umræða