,,Já við fengum fínan fisk í Helluvatni í dag, þetta er gaman þegar veðurfarið hefur batnað og fiskurinn farinn að taka fluguna“ sagði veiðimaður sem veiddi flottan fisk í Helluvatni. Fjölmenni var við Elliðavatn í dag, veiðimenn á öllum aldri og fiskurinn að gefa sig.
Það var gaman að sjá að veiðimenn eru byrjaðir að veiða meira núna, það hefur hlýnað verulega og fiskurinn farinn að taka hjá veiðimönnum. Við fréttum af boltafiski í Elliðavatni, urriða fyrir nokkrum dögum, allavega 5 til 7 punda fiski.
,,Við erum ekki búnir að fá neitt“ sögðu ungu veiðimennirnir sem reyndu og reyndu eins og eldri mennirnir sem sátu og ræddu málin um veiði og annað. Í veiði geta menn slappað af og svo eru sagðar ein og ein merguð veiðisaga.
Það var stemming við Elliðavatn í dag og svaka fjöldi var að veiða í blíðunni. Mynd: María Gunnarsdóttir