Kona um fimmtugt var sakfelld fyrir innflutning á 18.710 töflum af MDMA (Ecstacy) og dæmd til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar. Þótt konan hafi aðeins þjónað sem burðardýr var hér um verulegt magn af mjög hættulegum fíkniefnum að ræða.
Með skýlausri játningu ákærðu fyrir dómi, sem samrýmist rannsóknargögnum máls, er sannað að hún hafi gerst sek um þá háttsemi sem henni er gefið að sök í ákæru og þar þykir rétt heimfærð til refsiákvæða. Ákærða hefur ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi svo kunnugt sé. Af framburði ákærðu fyrir dómi og fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að hún hafi verið eigandi nefndra fíkniefna eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra til Íslands með öðrum hætti en þeim að samþykkja að flytja efnin til landsins gegn greiðslu. Verður litið til þessara atriða við ákvörðun refsingar, sem og til greiðrar játningar ákærðu fyrir dómi. Á hinn bóginn verður ekki framhjá því horft að ákærða flutti til landsins verulegt magn af MDMA (Ecstacy) töflum með afar mikla hættueiginleika og voru efnin ætluð til söludreifingar hér á landi. Þótt ákærða hafi gegnt hlutverki burðardýrs er ljóst að umræddur innflutningur efnanna gat ekki orðið að veruleika án aðkomu hennar að brotastarfseminni, en varlega má ætla að hagnaður af sölu taflnanna á fíkniefnamarkaði hér á landi hefði numið um eða yfir 60.000.000 króna
Ákærða, Georgia Birliraki, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald ákærðu frá 4. febrúar 2024, að fullri dagatölu. Ákærða sæti upptöku á haldlögðum 18.710 töflum af MDMA.