Undirbúningsvinna er hafin að stofnun streymisveitu með íslensku myndefni. Umrætt streymi verður á vegum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Kvikmyndasafns Íslands og mun starfsfólk þess sinna þessari vinnu, en einnig hefur Ásgrímur Sverrisson kvikmyndagerðarmaður verið ráðinn tímabundið til verkefnisins.
Þetta var tilkynnt á vef Kvikmyndamiðstöðvar og þar er vísað í Kvikmyndastefnu til ársins 2030. Segir einnig að efnisframboð umræddrar streymisveitu verði háð áhuga og samþykki rétthafa íslenskra kvikmynda í hverju tilviki. Fjallað er um málið á kvikmyndir.is
„Hugmyndin er að streymisveitan veiti aðgang að íslenskum kvikmyndaarfi þegar myndir eru ekki fáanlegar annars staðar. Henni er ekki ætlað að vera í samkeppni við aðra aðila sem kunna að bjóða uppá íslenskt efni hverju sinni,“ segir í tilkynningu Kvikmyndastöðvar.
„Ljóst er að stór hluti íslenskra kvikmynda í gegnum tíðina eru lítt eða ekki aðgengilegar í samtímanum. Því er gert ráð fyrir að veitan gefi almenningi, bæði á Íslandi og erlendis, aðgang að íslenskum bíómyndum, þáttaröðum, heimildamyndum, stuttmyndum og öðru efni til framtíðar.“
Fram kemur einnig að streymisveitan verður tengd Kvikmyndavefnum, sem rekin er á vegum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, þannig að hlekkir verða við síður einstakra verka á Kvikmyndavefnum yfir á streymisveituna.
Eins og greint var frá að ofan er verkefnið á þróunarstigi. Viðræða við rétthafa hefst á næstunni og vinna varðandi tæknilegar lausnir í gangi. Verða þær hugmyndir nánar kynntar innan tíðar.