Fjármálaeftirlitið telur að Íslandsbanki hafi EKKI starfað að öllu leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum við framkvæmd útboðsins.
⛔ Niðurstaða fjármálaeftirlitsins að brot bankans samkvæmt framangreindu hafi verið alvarleg.
⛔ En sektin er eingöngu innan við 20% af hagnaði þessa ársfjórðungs.
Ásta Lóa þingmaður Flokks fólksins skrifar á vef Hagsmunasamtaka heimilanna:
Engin sætir ábyrgð!
„Banki“ getur ekki brotið lög ekki frekar en að bíll geti framið umferðalagabrot. Ef bíllinn ekur of hratt er bílstjórinn að sjálfsögðu sektaður því hann stjórnar bílnum.
Það er alltaf fólk sem brýtur lög, hvort sem það starfar innan banka eða ekur bíl en þegar fólk í banka brýtur lög er bankinn sektaður en það sjálft ber enga ábyrgð.
Þó enn eigi eftir að koma frá FME í hverju nákvæmlega þessi brot fólust, er nógu alvarlegt það sem kemur fram í þessari tilkynningu Íslandsbanka því samkvæmt henni fólust brotin m.a. í
„að viðeigandi lagakröfum og innri reglum bankans um veitingu fjárfestingarþjónustu hafi ekki verið fylgt í öllum tilvikum við undirbúning og framkvæmd útboðsins“
Það á m.a. við um:
- Hljóðritanir símtala
- Upplýsingagjöf til viðskiptavina
- Flokkun fjárfesta
- Ráðstafanir gegn hagsmunarárekstrum
Þetta er vægast sagt alvarlegt.
Í frétt Mbl segir:
„Íslandsbanki hefur gengist við því að hafa ekki starfað að öllu leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum vegna framkvæmdar á útboði á 22,5% eignarhlut ríkisins í bankanum, sem fram fór í mars í fyrra. Bankinn hefur fallist á að greiða 1,2 milljarð króna í sekt vegna málsins.“
Bankinn hefur sem sagt gengist við þessu og „fallist á“ að greiða sekt.
Við vitum ekki enn í hverju þessi brot fólust nákvæmlega og ég ætla ekki að hætta mér út í vangaveltur um það.
En ég vil fá að vita hverjir stóðu á bakvið þessi lögbrot.
Hverjir vissu af þeim og/eða gáfu fyrirskipanir um þau?
Ég efast um að „óbreyttir starfsmenn“ taki svona ákvarðanir upp á sitt einsdæmi alveg eins og ég efast um að yfirmenn hafi sjálfir framkvæmt lögbrotin.
Gagnvart yfirmönnum kemur þrennt til greina:
- Að þeir hafi gefið bein fyrirmæli um verklag sem varðar við lög
- Að þeir hafi gefið grænt ljós á þetta verklag að tillögu undirmanna
- Að þeir hafi litið fram hjá verklagi sem varðar við lög
En hversu hátt nær þetta? Var bankastjóranum t.d. kunnugt um þetta?
Hver er ábyrgð hennar og annarra yfirmanna bankans?
Samkvæmt þessari frétt Mbl. um tilkynninguna, virðist hún ekki vera nein.
Bankinn greiðir sekt þegar skaðinn er löngu skeður, sekt sem hefur lítil áhrif á starfsemi hans eða afkomu.
Síðan heldur lífið áfram eins og áður.
Bankinn heldur áfram að græða og fólkið sem að þessu stóð er algjörlega stikkfrí.
HVAÐ HEFUR Í RAUN BREYST FRÁ HRUNI?
Svo verður að ræða stórfelldan hagnað bankans á 2. ársfjórðungi sem er samkvæmt frétt Mbl. 6,6 – 7,3 milljarðar.
Þannig að sektin er um 10% af hagnaði bankans á fyrri helmingi þessa árs og innan við 20% af hagnaði þessa ársfjórðungs.
Ég myndi kalla það vel sloppið, ekki síst með tilliti til þess að þarna er um að ræða hagnað eftir að allur kostnaður, skattar og gjöld hafa verið greidd.
Sektarheimildirnar eru mikið hærri, en þær gætu verið allt að 10% af ársveltu, eftir því sem ég best veit.
Þessi yfirgengilegi hagnaður verður annars ekki að öðru leiti ræddur hér, því hann er efni á aðra grein.
EN HVAÐ HEFUR EIGINLEGA BREYST FRÁ HRUNI?!
Umræða