Samkomulag Seðlabanka Íslands við Íslandsbanka hf. um að ljúka með sátt máli vegna brota Íslandsbanka við sölumeðferð eignarhluta ríkisins í bankanum
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur haft til meðferðar mál er varðar meint brot Íslandsbanka hf. gegn tilteknum ákvæðum laga um markaði fyrir fjármálagerninga og laga um fjármálafyrirtæki. Til skoðunar í athugun fjármálaeftirlitsins var háttsemi Íslandsbanka við veitingu fjárfestingarþjónustu í tengslum við útboð Bankasýslu ríkisins á 22,5% eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka sem fram fór 22. mars 2022. Háttsemin sem mál þetta varðar tekur til margra þátta í starfsemi bankans og varðar margvíslegar skyldur hans sem umsjónar- og söluaðila í útboðinu.
Frummat fjármálaeftirlitsins var sent til Íslandsbanka 30. desember 2022. Með bréfi dags. 6. janúar 2023 lýsti Íslandsbanki yfir vilja til að ljúka málinu með sátt við fjármálaeftirlit Seðlabankans. Á fundi fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabanka Íslands 7. júní síðastliðinn var málið talið að fullu upplýst og forsendur fyrir hendi til að ljúka því með sátt við Íslandsbanka. Í samræmi við það og á grundvelli fyrirliggjandi gagna tók fjármálaeftirlitsnefnd þá ákvörðun sem nú er birt um að ljúka málinu með samkomulagi um sátt og greiðslu sektar að fjárhæð 1.160.000.000 krónur til ríkissjóðs og skuldbindingu um úrbætur.
Háttsemi Íslandsbanka felur í sér alvarleg brot á mikilvægum ákvæðum laga
Í undirritaðri sátt, sem birt er í heild sinni, er málsatvikum og niðurstöðum fjármálaeftirlitsins á brotum Íslandsbanka lýst með yfirstrikunum í samræmi við 9. gr. a. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Með undirritun sáttarinnar hefur bankinn gengist við því að hafa gerst brotlegur við nánar tiltekin ákvæði laga um markaði fyrir fjármálagerninga og laga um fjármálafyrirtæki og skuldbundið sig til að grípa til úrbóta. Íslandsbanka ber að skila úttekt á úrbótum bankans fyrir 1. nóvember 2023.
Niðurstaða fjármálaeftirlitsins er að stjórn og bankastjóri Íslandsbanka hafi ekki með fullnægjandi hætti innleitt stjórnarhætti og innra eftirlit sem tryggir skilvirka og varfærna stjórnun sem birtist meðal annars í því að ekki var tryggt að bankinn uppfyllti lagakröfur sem gilda um veitingu fjárfestingarþjónustu og fylgni við innri reglur sem stjórn hans hefur sett.
Íslandsbanki ekki talinn uppfylla að öllu leyti skylduna til að starfa heiðarlega, af sanngirni og fagmennsku
Meðal brota sem lýst er í sáttinni eru að Íslandsbanki hljóðritaði ekki símtöl, veitti viðskiptavinum rangar upplýsingar um skilmála útboðsins og fylgdi ekki skilyrðum laga við mat á umsóknum viðskiptavina um að teljast fagfjárfestar. Þá greip bankinn ekki til fullnægjandi ráðstafana til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, s.s. í tengslum við þátttöku stjórnenda og starfsmanna bankans í útboðinu og með fullnægjandi aðskilnaði starfssviða, og bankinn gerði ekki áhættumat í tengslum við aðkomu sína að söluferlinu.
Þá veitti Íslandsbanki Bankasýslu ríkisins villandi upplýsingar um flokkun fjárfesta sem tóku þátt í útboðinu. Með þeirri háttsemi að bjóða almennum fjárfestum að taka þátt í útboði sem eingöngu var ætlað hæfum fjárfestum virti Íslandsbanki ekki útboðsskilmála Bankasýslunnar. Loks var Íslandsbanki ekki talinn uppfylla að öllu leyti skylduna til að starfa heiðarlega, af sanngirni og fagmennsku í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, með trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi við undirbúning og framkvæmd útboðsins.
Háttsemi Íslandsbanka sem lýst er í sáttinni felur í sér alvarleg brot á mikilvægum ákvæðum laga um markaði fyrir fjármálagerninga og laga um fjármálafyrirtæki.
Sjá: Samkomulag um að ljúka máli með sátt