Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata í Reykjavíkurkjördæmi suður, var handtekin síðasta föstudag á skemmtistaðnum Kíkí queer bar. Þetta staðfestir hún í samtali við mbl.is.
„Ég vil byrja á því að segja að ég ber virðingu fyrir störfum öryggisgæslufólks. Ég held að það sé mjög snúið og þungt starf og þarna – á þessum tíma sérstaklega – þá er fólk, þá bera þau ábyrgð á og gæta öryggis stórs hóps af fólki sem er kannski ekki alveg upp á sitt besta, ef svo má segja,“ segir Arndís í samtali við mbl.is.
Segir Arndís að ástæða handtökunnar sé sú að hún hafi verið of lengi inn á salerni skemmtistaðarins. Öryggisgæslan hafi því reynt að vísa henni út. Bætir hún því við að dyraverðir hafi snúið hana niður.
„Dyraverðir óskuðu eftir aðstoð. Dyraverðir voru búnir að snúa mig niður vegna þess að það átti að henda mér út fyrir að hafa verið of lengi á salerninu, það er bara svoleiðis. Ég er þingmaður og ég hugsaði með mér: „Það er kannski ekki alveg ástæða til að bera mann hér út“. Þetta var óþarflega niðurlægjandi og óþarflega mikil harka af þeirra hálfu [dyravarðanna] og þar streitist ég á móti og þetta kannski vindur upp á sig og þau óska eftir aðstoð lögreglu við að koma mér út.“
Svo var Arndísi keyrt heim og engir eftirmálar, að hennar sögn.