Spáð allhvassri suðaustanátt og snjókomu
Búast má við að færð spillist á Suðurlandi í nótt og á morgun með allhvassri suðaustanátt og snjókomu. Lögreglustjóri á Suðurlandi segir í kvöldfréttum rúv, það vera vonbrigði að fólk hafi ekki virt vegalokanir í fárviðri í gær og bindur vonir við að það endurtaki sig ekki.
Viðbragðsaðilar á Suðausturlandi funduðu með Almannavörnum í dag vegna slæmrar veðurspár í nótt og á morgun, en búist er við að færð spillist með allhvassri suðaustanátt og snjókomu. Þar var stilla í dag eftir fárviðri síðustu daga þar sem björgunarsveitir stóðu í ströngu við að losa fasta bíla og hjálpa hröktum ferðamönnum í hús.
Grímur Hergeirsson, lögreglustjóri á Suðurlandi sagði að þjóðveginum frá Hvolsvelli að Kirkjubæjarklaustri verði lokað klukkan tíu í kvöld.
Veðuryfirlit
Milli Færeyja og Noregs er 970 mb lægð sem hreyfist austur og um 200 km V af Reykjanesi er 1000 mb smálægð sem fer A. Yfir Grænlandi er 1023 mb hæð.
Samantekt gerð: 26.12.2022 14:11.
Veðurhorfur á landinu
Norðlæg eða breytileg átt 5-13 m/s og él á norðaustanverðu landinu, annars úrkomulítið. Vaxandi suðaustanátt undir kvöld, 10-18 og fer að snjóa vestanlands seint í kvöld. Frost 3 til 16 stig, mildast við suðurströndina.
Austlæg átt á morgun, víða 8-15. Snjókoma suðaustantil og síðar á Austfjörðum, en annars él. Norðlæg átt 10-18 um landið vestanvert um kvöldið, hvassast og él á Vestfjörðum, en styttir smám saman upp og léttir til syðra. Hiti breytist lítið.
Spá gerð: 26.12.2022 18:39. Gildir til: 28.12.2022 00:00.
Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu
Austlæg átt 3-8 og bjart veður í dag, frost 5 til 10 stig. Suðaustan 10-15 og snjókoma seint í kvöld, en suðvestan kaldi og él í nótt. Snýst í norðan 5-10 annað kvöld og styttir upp. Dregur úr frosti um tíma.
Spá gerð: 26.12.2022 15:06. Gildir til: 28.12.2022 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag:
Minnkandi norðaustanátt, 5-13 m/s síðdegis. Víða él, en þurrt og bjart að mestu suðvestantil. Frost 3 til 12 stig.
Á fimmtudag og föstudag:
Norðlæg átt 5-13 en 10-18 um tíma austanlands. Él, einkum norðaustantil en úrkomulítið sunnan heiða. Áfram kalt í veðri.
Á laugardag (gamlársdagur):
Norðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og þurrt að kalla en stíf norðvestanátt og él á norðaustanverðu landinu. Talsvert frost.
Á sunnudag (nýársdagur):
Útlit fyrir breytilega átt með lítilsháttar éljum á víð og dreif. Frost 5 til 18 stig, kaldast inn til landsins.
Spá gerð: 26.12.2022 09:09. Gildir til: 02.01.2023 12:00.