Út er komin skýrslan Félagsleg og efnahagsleg staða og brotthvarf úr íslenskum framhaldsskólum, en hún er unnin af Kolbeinin H. Stefánssyni félagsfræðingi og Helga Eiríki Eyjólfssyni sérfræðingi í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Skýrslan fjallar um greiningu gagna Hagstofu Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytis er varða brotthvarf og námstafir á framhaldsskólastigi þar sem horft var til félagslegs og efnahagslegs bakgrunns nemenda ásamt námsárangri á grunnskólastigi með það fyrir augum að kortleggja þætti sem spá fyrir um brotthvarf og námstafir.
Rannsóknin byggir á samsettum skráargögnum Hagstofu Íslands og nær yfir tvo árganga, fædda árin 1995 og 1996. Árgöngunum er fylgt eftir frá árinu sem þeir verða fimmtán ára og þar til þeir verða tuttugu og tveggja ára.
Menntun foreldra og heildartekjur fjölskyldunnar skipta miklu máli
Í skýrslunni segir „Í þessari skýrslu er fjallað um brotthvarf úr framhaldsskóla frá öðru sjónarhorni en venjulega er gert á Íslandi. Í stað þess að beina athyglinni að nálægum orsökum brotthvarfs er brotthvarf skoðað sem birtingarmynd ójafnra tækifæra í íslensku þjóðfélagi með því að beina athyglinni að félagslegum og efnahagslegum bakgrunni. Í því samhengi skipta einkum tvær mælingar máli sem eru menntun foreldra og heildartekjur fjölskyldunnar. Þær skipta máli vegna þess hvernig þær tengjast lagskiptingu samfélagsins. Menntun hefur áhrif á þau störf sem fólk sinnir, sem skilgreina stéttarstöðu þeirra, sem aftur hafa áhrif á tekjur fólks og þar með á lífkjör fjölskyldna þeirra. Niðurstöðurnar benda til þess að brotthvarf sé birtingarmynd ójafnra tækifæra. Það er þó öðru fremur menntun foreldra sem skiptir máli.“
Einnig kemur skýrt fram að það að búa hjá einstæðu foreldri við sextán ára aldur og að eiga foreldri með örorkumat eykur almennt líkurnar á brotthvarfi, dregur úr líkum á endurkomu í nám og eykur líkurnar á endurteknu brotthvarfi. Þessir tveir þættir auka einnig líkurnar á námstöfum og því að vera utan skóla án þess að hafa lokið námi við tuttugu og tveggja ára aldur.
Grípa þarf fyrr inn í félagslegar aðstæður og styðja við námsárangur strax í grunnskóla
Þá segir einnig „Þó brotthvarf eigi sér stað í framhaldsskólum og þeir gegni því mikilvægu hlutverki í að sporna gegn því þá er mikilvægt að átta sig á því að ábyrgðin liggur ekki bara hjá framhaldsskólunum. Þvert á móti þarf að grípa fyrr inn með því að takast á við félagslegu aðstæðurnar sem leið til brotthvarfs og með því að styðja við námsárangur nemenda strax í grunnskóla sem og með félagslegum úrræðum utan skólakerfisins. Inngrip sem er ætlað til að bregðast við öðrum þáttum en námsárangri eru líklegri til árangurs á framhaldsskólastiginu.
Tillögur fyrir grunn- og framhaldsskólastigið
Í skýrslunni má finna tillögur til úrbóta á grunnskólastigi en þær eru:
- Aukið samstarf á milli skóla og félagsþjónustu fyrir börn til að greina þá þætti sem hamla námsgetu og við mótun og framkvæmd úrræða til að bregðast við þeim.
- Koma á upplýsinga- og eftirfylgniskerfi sem fylgist með afdrifum nemenda eftir grunnskóla og tryggir samfellu í stuðningsúrræðum á milli grunn- og framhaldsskóla.
- Efla vitund og ábyrgð grunnskóla á brotthvarfi nemenda 1-3 árum eftir lok grunnskóla með upplýsingamiðlum um brotthvarf nemenda til sveitarfélaga og grunnskóla innan þeirra.
- Gera athugun á því hvort fýsilegt sé að hanna forspárlíkan fyrir brotthvarf byggt á námsárangri í 7.-8. bekk svo grunnskólar geti hafið snemmtæka íhlutun til að vinna gegn brotthvarfi.
Á framhaldsskólastigi eru þessar tillögur lagðar fram:
- Koma á skimunartólum á grundvelli skráargagna skólanna og tölfræðilíkana/vélnámslíkana (e. machine learning) til að framhaldsskólar geti unnið gegn líklegu brotthvarfi nemenda og veitt þeim viðeigandi aðstoð.
- Aukið samstarf á milli skóla og félagsþjónustu til að greina þá beinu þætti sem tengjast félagslegri og efnahagslegri stöðu sem auka líkur á brotthvarfi og við mótun og framkvæmd úrræða til að bregðast við þeim.
Velferðarvaktin hefur fengið kynningu á skýrslunni og mun fjalla um hana á næstunni í undirhópum sínum.
Fyrirspurnum varðandi skýrsluna má beina til Kolbeins Stefánssonar, félagsfræðings, á netfangið kolbeinn hjá hi.is. Skýrsluna má finna á vef félagsmálaráðuneytisins.