Stjórnsýslufræðingur segir Flokk fólksins og VG ekki eiga aðra kosti en að endurgreiða styrki sem ríkið hefur greitt þeim. Það myndi óhjákvæmilega leiða til gjaldþrots þeirra. Þá fékk Sjálfstæðisflokkur einnig 167 milljónir ólöglega.
Ítarlega er fjallað um málið á vef ríkisútvarpsins í dag og þar kemur fram að stjórnsýslufræðingur segi að Flokkur fólksins eigi ekki annan kost en að endurgreiða þær 240 milljónir sem hann þáði í styrk frá hinu opinbera síðustu þrjú ár. Það myndi óhjákvæmilega leiða til gjaldþrots flokksins.
Fjársýsla ríkisins hafi sýnt af sér vanrækslu því kostnaður ríkisins vegna þessara mistaka sé á bilinu 400 til 500 milljónir króna.
Undanfarin þrjú ár hefur Flokkur fólksins fengið um 240 milljónir króna í styrki frá ríkissjóði, þótt flokkurinn hafi ekki uppfyllt skilyrði. Vinstri græn fengu 207 milljónir á sömu forsendum. Forysta flokks fólksins hefur lítið viljað svara fyrir málið að öðru leyti en að skráningu flokksins verði breytt á næsta landsfundi.
Fleiri flokkar kunna að sitja í súpunni því Vísir greindi frá því í morgun að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki uppfyllt skilyrði laga til að þiggja 167 milljóna króna styrk árið 2022. Flokkurinn hefði breytt skráningu sinni í apríl það ár, en styrkurinn hefði verið greiddur út í janúar.
Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur, segir að hið opinbera geti ekki gert annað en að afturkalla styrkina og krefjast endurgreiðslu, enda geti ríkið ekki greitt út almannafé nema að skilyrðum laga sé uppfyllt. Engu skipti þótt flokkarnir hafi starfað í góðri trú þegar tekið var við styrkjunum.
Haukur segir að í þessu máli hafi Fjársýslan sýnt af sér vanrækslu því kostnaður ríkisins vegna þessara mistaka sé á bilinu 400 til 500 milljónir króna. „Þá tel ég málið svo alvarlegt að það komi til greina að forstöðumaðurinn fái áminningu.“ Segir Haukur í viðtali við ríkisútvarpið.