Hagsmuna hverra er verið að gæta ?
Þingflokkur Miðflokksins ræddi í gær og fram á nótt frumvarp um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál, var þetta 2. umræða frumvarpsins en umræðan heldur áfram á Alþingi í dag. Upphæðirnar sem þjóðin verður af, getur hlupið á milljörðum ef ekki tugum milljarða króna en samt sem áður hefur hvorki Samfylkingin, flokkar í ríkisstjórn eða aðrir flokkar séð ástæðu til þess að fjalla um þetta mikla hagsmunamál fyrir þjóðina og mæta ekki í þingsal.
Þingflokkur Miðflokksins var ekki á nefndaráliti sem fylgir frumvarpinu þar sem þingflokkurinn taldi óljóst hvað þetta frumvarp muni hafa í för með sér. Þingflokkur Miðflokksins telur að ekki hafa komið skýr svör af hverju Seðlabankinn sé að þrýsta á að frumvarpið verði samþykkt.
Umræðan í gær stóð í rúmar 14 klukkustundir. Ítrekað var kallað eftir svörum sem þingflokkur Miðflokksins hafði um frumvarpið. Enginn þingmaður sem var á nefndarálitinu mætti í pontu og svaraði álitaspurningum. Það er því ljóst að þeir þingmenn sem eru á frumvarpinu treysta sér ekki til þess að svara spurningum þingflokks Miðflokksins.
Það er rétt að taka það fram að um gríðarlega fjárhagslega hagsmuni er að ræða. Upphæðirnar sem þjóðin verður af, verði frumvarpið samþykkt, hleypur á milljörðum ef ekki tugum milljarða.
Í mati Ásgeirs Jónssonar hagfræðings og Hersis Sigurgeirssonar stærðfræðings á uppgjöri bankahrunsins kemur fram að ef aðgerðir vegna losunar aflandskróna hefðu gengið eftir eins og þær voru kynntar 2016 hefðu þær skilað 86 milljörðum í ríkissjóð. Eftirgjöfin sem felst í frumvarpinu nú nemur hæglega tugum milljarða en einnig eru áformin til þess fallin að rýra trúverðugleika íslenskra stjórnvalda og sýnir að hægt sé að knýja þau til að hverfa frá yfirlýstri stefnu.
Á meðan á umræðum stóð talaði framsögumaður frumvarpsins í samtals 14 mínútur í sinni ræðu og andsvörum. Þingflokkur Miðflokksins talaði í rúmar 14 klukkustundir en fékk engin svör við sínum spurningum. Það ætti að vera eðlilegt að umræða færi fram í þingsal þar sem hægt væri að skiptast á spurningum og svörum þeirra sem eru á nefndarálitinu og þeirra sem ekki eru.
Þetta sama frumvarp átti að keyra í gegnum Alþingi á síðasta degi þingfundar í desember, án þess að þingmenn fengju að sjá frumvarpið áður en það yrði lagt fyrir þingið.
Útskýring: Þann 16.06.2016 hélt Seðlabanki Íslands útboð samkvæmt aðgerðaáætlun um losun fjármagnshafta frá 08.06.2015. Þetta var síðasta útboðið í röð útboða frá júní 2011 þar sem eigendum aflandskróna var boðið að kaupa erlendan gjaldeyri áður en stjórnvöld hæfu losun hafta á innlenda aðila, þ.e. lífeyrissjóði, aðra lögaðila og einstaklinga.
Fjárhæð samþykktra tilboða í þessu útboði nam um 83 mö.kr. af 188 mö.kr. og fóru viðskiptin fram á genginu 190 krónur fyrir hverja evru.
Á grundvelli laga nr. 37/2016 veitti Seðlabanki Íslands þann 31.08.2016 tímabundna og valkvæða heimild til úttektar aflandskróna á viðmiðunargenginu 220 krónur á evru og varð ósk um viðskipti að berast fyrir lok dags 01.11.2016.
Á grundvelli þessarar heimildar urðu engin viðskipti.
Þann 12.03.2017 tilkynnti Seðlabanki Íslands að hann hefði gert samkomulag við nokkra eigendur aflandskrónueigna, sem háðar voru sérstökum takmörkunum, skv. lögum nr. 37/2016, um að kaupa af þeim krónueignir að fjárhæð 90 ma.kr. á genginu 137,5 krónur á evru. Við viðskiptin minnkaði umfangið úr 195 mö.kr. í 105 ma.kr.
Aflandskrónueigendum sem ekki komu að samkomulaginu var boðið að eiga viðskipti við Seðlabankann á sömu kjörum þann 04.04.2017.
Lokauppgjör þessara viðskipta fór fram 22.06.2017 og tilkynnti Seðlabankinn í kjölfarið að bankinn hefði keypt 22,4 ma.kr. í þessum seinni áfanga og að samtals hefðu viðskipti átt sér stað með 112,4 ma.kr. á genginu 137,5 krónur á evru í þessum tveimur áföngum.
Þegar þessi viðskipti höfðu átt sér stað var umfang aflandskrónueigna orðið 3,5% af vergri landsframleiðslu eða um 88 ma.kr.
Þetta skýrir að miklu leyti hvað er í húfi. Eigendur aflandskróna sem eru í flestum tilfellum vogunarsjóðir eru að fá meiri gjaldeyri en ella, þjóðinni er ætlað að bera kostnaðinn.
Úr frumvarpinu „Er heimilt að taka aflandskrónueignir í formi innstæðna út af reikningum háðum sérstökum takmörkunum eða innleysa innstæðubréf Seðlabankans til að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi eða alþjóðlegri verðbréfamiðstöð sem lagður er á reikning hjá erlendu fjármálafyrirtæki erlendis.“
Það er með ólíkindum að ekki sé hægt að ræða þetta stóra frumvarp í þinginu og það er því deginum ljósara að þeir sem treysta sér ekki til þess að svara spurningum þingmanna Miðflokksins hafa eitthvað að fela eða treysta sér ekki í málefnalega umræðu.
Einni stórri spurningu er ósvarað. Hagsmuna hverra er verið að gæta ?