Bubbi Morthens minnist vinar síns Ketils Larsen með hlýhug og hlýjum orðum í hans garð en vinátta þeirra spannar áratugi aftur í tímann eða frá því að Bubbi var ungur og óþekktur í tónlistarbransanum. Ketill spáði því þá að Bubbi ætti eftir að verða frægur
Mynd: Rúnar Gunnarsson
,, Minning. Ævintýrið Ketill Larsen, er farinn, einn af seinustu skjalfestu afkomendum Jóseps Bonaparte, albróður Napóleons Bonaparte. Og er það í stíl við ævintýrið sem hann lifði.“
,, Ég kynntist Katli barnungur. Móðir hans, Helga Larsen á Engi eins og hún var kölluð, var vinkona móður minnar. Hún var þjóðþekkt á sínum tíma, hestakona mikil og dýravinur. Veturinn 1971 fór ég að leggja leið mína í hús Æskulýðsráðs Reykjavíkur við Tjörnina. Þar hittist ungt fólk í klúbbi, sem Ketill stofnaði og kallaði klúbb 71, og skemmti sér við allskonar dans, tónlist og leiki. Þar var Ketill réttur maður á réttum stað, allt í öllu. Nógu skrítinn til þess að fitta inn. Þá þegar var hann farinn að tala bull-rússnesku og frönsku og segja manni sögur sem voru svo lygilegar að maður trúði þeim.
Ketill var áhrifavaldur í mínu lífi. Þegar hann uppgötvaði að ég spilaði á gítar var ég strax tekinn í ferðahópinn og er minnisstæð ferð til Saltvíkur það vorið.
Eitt kvöldið þegar Ketill kynnti mig til leiks sagði hann að hér væri strákur sem ætlaði að spila og að hann spáði því að hann yrði frægur einhvern tíman. Þessi orð urðu að áhrínsorðum og Ketill var fyrsti spámaður minn.
Mér þótti vænt um Ketil alla tíð síðan fyrir að trúa á feimna, brotna strákinn og þó aðallega fyrir það að hann trúði á ævintýrið allt til loka. – Við komum og við förum.
Ég votta aðstandendum samúð mína. Blessuð sé minning Ketils Larsen.“ –
Afkomandi Bonaparte: Fyrr í morgun, sagði Bubbi Morthens á vefsíðu sinni um vin sinn:
,,Ketill Larsen vinur minn er látinn, hér er saga sem fáir vissu um, ❤️ afkomandi Bonaparte“. Þar vitnar Bubbi í sögu sem að fáir hafa vitað um og hefur ekki farið hátt en hún er um ættir og uppruna Ketils Larsen. Við setjum hér link á þá sögu, með góðfúslegu leyfi Bubba. Saga sem að hefur órjúfanleg tengsl við vin hans, Ketil Larsen, heitinn.
Móðir Bónapartanna í Mosfellssveit