Það verður órói í baklandi VG
,,Það er alveg ljóst að kosningaúrslitin leiða til þess að það skapast órói í baklandi Vinstri grænna. Hann þarf ekki endilega að snúast um aðild flokksins að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Líklegra er að hann snúizt um það hvernig ráðherrar VG halda á þeirri aðild af sinni hálfu.
Staðreynd er að Sjálfstæðisflokkur á ekki auðvelt með að ná samstarfi við aðra flokka um stjórnarsamstarf. VG hefur mun meiri möguleika á því.
Þess vegna hefur VG býsna sterka stöðu til að setja samstarfsflokkum sínum skilyrði. Það hafa ráðherrar flokksins ekki gert, alla vega ekki svo að vitað sé.
Kosturinn fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, sem báðir eiga sterk ítök í atvinnuvegum landsmanna, við stjórnarsamstarf með VG var auðvitað hugsaður á þann veg, að VG mundu fylgja nánari tengsl við verkalýðshreyfinguna.
Það hefur ekki orðið og svo virðist sem VG hafi ekki síður en Samfylkingin misst þau tengsl við verkalýðsfélögin sem máli skipta.
Það verður fróðlegt að sjá, hvort og þá með hvaða hætti órói í baklandi VG mun springa út á næstu dögum og vikum. “ Segir Styrmir Gunnarsson.