Viljayfirlýsingin er undirrituð í ljósi vaxtar ferðaþjónustu og flugstarfsemi samfara mikilli uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, sem hefur gjörbreytt stöðu atvinnumála, vinnumarkaðar og samfélags í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Þrátt fyrir tímabundinn samdrátt í flugi og ferðaþjónustu, er þess að vænta að sú þróun haldi áfram næstu ár og áratugi. Örar breytingar þýða að móta þarf nýja sýn á framtíð og þróun svæðisins en land í nágrenni flugvallarins er verðmætt og fyrirséð að verðmæti þess aukist enn frekar.
„Gott skipulag er forsenda þess að hægt verði að hámarka samfélagslegan ábata af nýtingu landsins og er skipulag á svæðinu því mikilvægur þáttur í vexti atvinnustarfsemi, sköpun starfa og almennri efnahagsþróun. Í því sambandi þarf að tryggja að skipulag verði heildstætt og land verði nýtt með sem bestum hætti óháð mörkum skipulagssvæða sveitarfélaga og Keflavíkurflugvallar,“ segir m.a. í viljayfirlýsingunni.
Í henni felst að efnt verður til formlegs samstarfs. Það land sem samstarfið tekur til verður afmarkað og haldin samkeppni um skipulag, landnýtingu og þróun svæðisins. Í framhaldinu verður unnið skipulag og þróunaráætlun fyrir svæðið. Áhersla er lögð á að landið verði skipulagt sem ein heild á grundvelli sameiginlegra hagsmuna aðila yfirlýsingarinnar.
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf., Kadeco, sem er í eigu ríkisins mun annast skipulagsvinnu, þróun, markaðssetningu lands og hagnýtingu þess, ráðstöfun lóða, innheimtu byggingaréttar og lóðaleigu að lokinni skipulagsvinnu. Ríkið mun sem eigandi félagsins hafa samráð við aðila yfirlýsingarinnar á grundvelli samnings.
„Það er ánægjulegt að nú hefur náðst gott samkomulag um þróun, skipulag og uppbyggingu svæðisins. Farsælt samstarf ríkisins, sveitarfélaga og Isavia er forsenda þess að þau tækifæri sem Keflavíkurflugvöllur og nærsvæði hans hafa upp á að bjóða verði nýtt með markvissum hætti, “ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra við undirritun viljayfirlýsingarinnar.
Umræða