Banaslys varð á Haukadalsflugvelli á Rangárvöllum nú síðdegis er flugvél hlekktist á í flugtaki. Lögreglan á Suðurlandi greinir frá því í færslu á Facebook að flugmaður flugvélarinnar, íslenskur karlmaður á sextugsaldri, hafi verið úrskurðaður látinn á vettvangi.
Unnið er að rannsókn á tildrögum slyssins.
Tilkynning barst rétt fyrir hálfþrjú um að flugvél hefði hlekkst á í flugtaki á Haukadalsflugvelli á Rangárvöllum og var Þyrla send af stað vegna slyssins en var síðan snúið við. Björgunarsveitir voru einnig kallaðar á vettvang en þetta er í annað sinn sem flugslys verður á flugvellinum á skömmum tíma. Vísir segir um fimmta tug manna hafa orðið vitni að slysinu og áfallateymi hafi því verið sent á slysstað.