Skáld og Rithöfundar

Ég sé að í Mogga í dag er birtur listi yfir nokkra rithöfunda sem hafa fengið skáldalaun. Listinn er sagður koma frá Samtökum skattgreiðenda. Það er augljóst að hann er ekki birtur til þess að fagna þessum tíu manneskjum og framlagi þeirra til velsældar og gleði þjóðarinnar og tungu hennar.
Þar er til tekið að fimm bækur hafi komið út á 25 árum frá einum höfundanna og gefið í skyn með framsetningu og fyrirsögn að það sé hlálega lítið fyrir svakalegan pening, og síðan er upphæðin tiltekin.
Það þarf auðvitað að býsnast yfir slíku. Ef Jónas Hallgrímsson væri á þessum lista þá væri líklega hnýtt í hann fyrir léleg afköst. Ljóðskáld, rithöfundar og aðrir listamenn hafa búið við það nánast síðan Egill Skallgrímssson var að ljóða hér á landi að það sé hnýtt í þau. Samt er það svo að framlag þeirra er ómetanlegt í krónum talið. Ómetanlegt.
Að blað sem fyrir korteri síðan var að opna menningarvef með umfjöllun um listir og allt þeim tengt skuli með svo lúmskum hætti gera þessa tíu listamenn tortryggilega vegna launa sem þau hafa þegið – jú ég veit líka að sum þeirra eru ekki í flokki með Mogga pólitíkinni – en að blað sem er á styrkjum frá kvótaelítunni skuli fara fram með þessum hætti furðar mig.
Já já, ég veit líka að svarið verður að þetta sé komið frá Samtökum skattgreiðenda en sú fyrirsögn gerir ekkert annað en að ala á úlfúð og öfund.
Á þessum lista eru meiri verðmæti fyrir fólkið í landinu en milljarðarnir sem eru notaðir til þess að gefa út áróður í formi dagblaðs. Á tímum eins og þeim sem við lifum er listinn í raun fjöreggið okkar.
Björgunarbátar tungunnar
Rithöfundar sem skrifa á íslensku eru björgunarbátar tungunnar. Skáld sem yrkja á íslensku eru of fá. Fögnum rithöfundum okkar, flöggum fyrir þeim, höldum rithöfundadaginn hátíðlegan. Hvergi meðal siðaðra þjóða eru rithöfundar smættaðir, gerðir tortryggilegir vegna hæfileika sinna eins og hér á landi.
Að sjá það sem aðrir sjá ekki, segja það sem valdhöfum er ekki þóknanlegt, birta okkur fegurð sem við vissum ekki að væri til, óhræddir við að sýna okkur inní kviku okkar sjálfra, stækka og fegra okkar innra landslag.
Listin og listamenn geta verið allskonar risum í þjóðfélaginu óþægilegir í gagnrýni sinni og við eigum að fagna því.