2.8 C
Reykjavik
Föstudagur - 27. janúar 2023
Auglýsing

Ríkisstjórnin fallin og flokkurinn kvaddur

Auglýsingspot_img

Nýjar fréttir

Auglýsingspot_img

 

Stjórnin kvödd

Samkvæmt könnun MMR er fylgi Sjálfstæðisflokksins hrunið og ríkisstjórnin fallin. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú aðeins 18,1%, þremur prósentustigum minna en við mælingu MMR í seinni hluta október. 

Stuðningur við ríkisstjórnina mældist nú 41,5%, samanborið við 42,2% í síðustu könnun og væri því kolfallin ef kosið yrði í dag. Mikill titringur hefur verið vegna m.a. Samherjamálsins og fleiri mála að undanförnu en athygli hefur vakið að forsætisráðherra og formaður VG lét ekki sjá sig í þeirri umræðu á Alþingi, þar sem hart var deilt um þetta grafalvarlega mál sem hefur vakið heimsathygli.
Í dag bar svo til tíðinda þegar þingmaður Vinstri grænna kvaddi ríkisstjórnina endanlega á þeim forsendum að hann taldi fullreynt að hann gæti sinnt þingstörfum eftir samvisku sinni og sannfæringu við núverandi aðstæður í ríkisstjórnarsamstarfinu. Andrés Ingi Jónsson sem er þingmaður VG í Reykjavíkurkjördæmi norður hefur því yfirgefið Vinstri græna með formlegum hætti í dag.

Stjórnin kvödd

Andrés Ingi Jónsson er þingmaður í Reykjavíkurkjördæmi norður og hefur yfirgefið Vinstri græna

,,Um þessar mundir eru tvö ár síðan flokksráð Vinstri grænna samþykkti að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Sú ákvörðun var nógu umdeild til að fjöldi félaga sagði skilið við hreyfinguna. Þrátt fyrir að ég hafi ekki stutt ríkisstjórnina á flokksráðsfundi ákvað ég að starfa áfram innan þingflokks VG – ekki síst til að styðja hina ágætu ráðherra Vinstri grænna til góðra verka.
Eins og við var að búast hefur verið nokkur áskorun að takast á við samskipti og samstarf í þingflokknum eftir þann ágreining sem stjórnarsamstarfið skapaði. Þó tel ég að við höfum öll lagt okkur fram um að vinna sem best saman.
Það hafa á þessu tíma safnast upp dæmi sem mér þykja til marks um það sem ég óttaðist í upphafi: að Vinstri græn ættu sífellt erfiðar með að veita samstarfsflokkunum mótspyrnu og stjórnarsamstarfið færðist enn fjær því sem flokkurinn ætti að standa fyrir. Vissulega höfum við náð árangri en oft hafa málamiðlanir fallið fjarri okkar hugsjónum, eins og birtist til að mynda í stjórnarfrumvarpi um útlendinga á liðnu vori. Aðkallandi aðgerðir til að sporna við hamfarahlýnun hafa ekki gengið jafn langt og ég tel nauðsynlegt og sjálfsagt í ríkisstjórn undir forystu grænnar hreyfingar.
Síðastliðin tvö ár hef ég upplifað að samstarfið hefti mig í að vinna af fullum krafti fyrir þeim hugsjónum sem ég var kosinn fyrir. Nú er svo komið að ég tel fullreynt að ég geti sinnt þingstörfum eftir samvisku minni og sannfæringu við núverandi aðstæður.
Fyrr í dag kvaddi ég félaga mína í þingflokki Vinstri grænna og þakkaði þeim samfylgdina. Ég hef tilkynnt forseta Alþingis að ég hafi sagt mig úr þingflokknum og muni starfa sem þingmaður utan þingflokka.“ Segir Andrés Ingi Jónsson.
Hefur þú áhuga á að hjálpa Fréttatímanum að vaxa og dafna?
Með því að styrkja Fréttatímann stuðlar þú að frjálsri og óháðri umfjöllun.
https://frettatiminn.is/2019/11/28/eins-farid-med-island-og-namibiu-kvotakerfid-til-mannrettindadomstolsins/