Á loftslagsráðstefnunni COP27 sem haldin var í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi dagana 6.-20. nóvember sl., var tekin ákvörðun um stofnun sérstaks loftslagsbótasjóðs.
Eftir á þó að útfæra regluverk varðandi fjármögnun og úthlutunarreglur sjóðsins, en tillögur þar um eiga að liggja fyrir á COP28 sem haldið verður í desember á næsta ári. Þegar sú ákvörðun liggur fyrir þurfa íslensk stjórnvöld að taka afstöðu til þess hvort Ísland taki þátt í fjármögnun sjóðsins. Þetta kom fram í minnisblaði sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og matvælaráðherra kynntu á fundi ríkisstjórnar í morgun.
Á ráðstefnunni náðist einnig að halda inni því markmiði sem samþykkt var á loftslagsráðstefnunni í Glasgow í fyrra að halda hækkun hitastigs jarðar undir 1,5°C. Nokkuð bar á því að ríki vildu hverfa frá þeim metnaði, sérstaklega hvað það varðaði að leggja áherslu á markið um 1,5 gráðu, sem og útfösun á kolum.
Varnarsigur að áfram sé stefnt á 1,5°C
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir ákveðin varnarsigur hafa náðst með þessu, en Ísland studdi í sínum málflutningi við þær áherslur að horft yrði til Glasgow-ákvörðunarinnar sem viðmiðs og ekki yrðu stigin skref aftur á bak í metnaði.
Þá studdi Ísland að haf- og jöklasvæði yrðu nefnd í niðurstöðu fundarins, að horft yrði til niðurstaðna nýstu vísindarannsókna og að sérstaklega yrði vísað í mikilvægi þess að ávallt yrði tekið tillit til mannréttinda, jafnréttismála og réttinda frumbyggja við allar ákvarðanir.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sótti fundinn seinni vikuna í forföllum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem fékk ekki leyfi læknis til að takast á hendur það ferðalag sem þátttaka í ráðstefnunni krafðist.
„Niðurstaða fundarins er vissulega jákvæð hvað varðar stofnun hins nýja sjóðs sem var mikilvægur svo þau sem verða fyrir mestum áhrifum loftslagsbreytinga fái aðstoð, en hins vegar þarf heimurinn á miklu meiri metnaði að halda en tókst að skrifa inn í textana varðandi losun og útfösun jarðefnaeldsneytis. Nú þurfum við að sýna hugrekki og spýta í lófana. Þótt ekki sé krafa um aukinn metnað í samþykktinni þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að við gerum betur,” segir Svandís.
Helstu niðurstöður fundarins:
- Stofnaður verður sérstakur loftslagsbótasjóður og er samstaða um að áhersla sé lögð á að styðja við þau þróunarríki sem eru sérstaklega viðkvæm gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga.
- Vinnuáætlun um mótvægisaðgerðir (MWP) samkvæmt ákvörðun frá COP26, felur í sér að unnið verður með markvissari hætti að því að brúa bilið milli þess sem upp á vantar í samdrætti í losun annars vegar og því sem vísindin telja nauðsynlegt til að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C. Liður í vinnunni verða vinnustofur sem halda á fyrir COP28 á næsta ári, um kostað við innleiðingu mótvægisaðgerða loftslagsbreytinga, þar sem áhersla verður á hvernig megi auka áhuga fjárfesta og ná inn auknu fjármagni til mótvægisaðgerða, bæði frá opinbera- og einkageiranum.
- Veita á 350 milljónum Bandaríkjadala í Aðlögunarsjóðinn (Adaptation Fund). Ísland hefur gerst aðili að sjóðnum og leggur honum til 50 m.kr. á næstu þremur árum.
- Sharm el-Sheikh aðlögunaráætlun, sem auka á viðnámsþrótt viðkvæmustu samfélaga fyrir 2030, var samþykkt á þinginu
- Sharm el-Sheik vinnuáætlun um heimsmarkmarkmið um aðlögun (global goal on adaptation) var samþykkt á þinginu.
Krafa Íslands og margra annarra ríkja um að sett yrðu fram markmið um að draga úr notkun alls jarðefnaeldsneytis náði hins vegar ekki fram að ganga.
Þátttaka í viðburðum um jafnréttismál, græna orku og freðhvolfið
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra tók þátt í fjölda viðburða og sótti tvíhliða fundi með umhverfisráðherra Sviss, fulltrúum alþjóðastofnana og fleiri aðilum. Ráðherra flutti ávarp við stofnun nýs vettvangs, sem leiddur er sameiginlega af Íslandi og Síle og hefur það að markmiði að vernda frosin landsvæði jarðar, eða freðhvolfið eins og það er kallað, með skilvirkum loftslagsaðgerðum.
Matvælaráðherra, flutti einnig yfirlýsingu Íslands og gerði m.a. grein fyrir sjálfstæðu markmiði Íslands um 55% minnkun á losun á beina ábyrgð Íslendinga fyrir árið 2030 og þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að styðja áfram við að markmiðið um að hitastig jarðar hækki ekki meira en um 1,5 gráðu miðað við upphaf iðnbyltingar. Einnig kom fram í máli ráðherra að í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar verði ekki gefin út leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands. Svandís greindi jafnframt frá auknum fjárframlögum Íslands til alþjóðlegra loftslagsmála og fundaði fyrir hönd Íslands með Hoesung Lee, formanni Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC)
Þá flutti ráðherra opnunarávarp á viðburðum, sem m.a. fjölluðu um jafnrétti og leiðtogahlutverk kvenna í grænni umbreytingu og um þátt kvenna og ungs fólks í heimsmarkmiði 7 um næga endurnýjanlega orku.
Auk þess tóku fulltrúar Orkustofnunar og Veðurstofunnar virkan þátt í ýmsum viðburðum og stóð Veðurstofan í samstarfi við Alþjóðaveðurfræðistofnunina (WMO) fyrir hliðarviðburði um afdrif íss og snævar í hlýnandi loftslagi jarðar (freðhvolfið) og þær áskoranir sem þeim fylgja.