Standið við niðurgreiðsluna
Ríkisstjórnin ætlar ekki að fullfjármagna niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu, þrátt fyrir að frumvarp þess efnis hafi verið samþykkt á Alþingi síðastliðið vor. Með frumvarpinu átti að setja sálfræðiþjónustu undir sama hatt og aðra heilbrigðisþjónustu þannig að hún yrði ódýrari og aðgengilegri öllum. Ný fjárlög taka gildi 1. janúar en í þeim hefur ríkisstjórnin aðeins gert ráð fyrir um 5% af þeirri upphæð sem áætlað er að þurfi til að fjármagna niðurgreiðsluna.
Það þýðir að niðurgreidd sálfræðiþjónusta, sem margir bíða eftir, verður af verulega skornum skammti á næsta ári. Sálfræðiþjónusta verður áfram kostnaðarsöm og aðgengileg fáum. Frumvarpið var samþykkt af öllum viðstöddum þingmönnum, bæði í minnihluta og meirihluta. Það er hlutverk ríkisstjórnar að fjármagna samþykkt frumvörp í fjárlögum, en með því að gera það ekki að fullu er ríkisstjórnin að svíkja íslensku þjóðina um þjónustu sem hún hefur rétt á og tilkall til.
Allt tal ríkisstjórnarinnar um að huga þurfi að geðheilsu fólks er fullkomlega innihaldslaust á meðan fullt fjármagn í niðurgreiðslu er ekki tryggt. Við skorum á ríkisstjórnina að uppfylla skyldu sína og fjármagna þessa, nú lögbundnu, þjónustu að fullu. Það hefur aldrei verið mikilvægara en núna að tryggja að þjónusta sálfræðinga sé aðgengileg öllum. Þrýstum á stjórnvöld að fylgja lögunum sem þau setja sjálf. Skrifaðu undir hér!