Transparency International, alþjóðleg samtök gegn spillingu, birtu í morgun niðurstöður mælinga á spillingu í flestum löndum heims árið 2020. Mælingin nær til spillingar í opinbera geiranum og byggist á áliti sérfræðinga og aðila í viðskiptalífinu. Mælingin kallast Corruption Perception Index (CPI) á ensku. Rúv.is fjallaði um málið í fréttum í morgun og þar segir jafnframt að:
,,Samtökin Transparency International voru stofnuð árið 1992 og hafa um langa hríð verið ein áhrifaríkustu samtökin sem vinna að heilindum í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptalífi hvarvetna í heiminum. Samtökin starfa í meira en 100 löndum og berjast gegn spillingu og óréttlæti og margs konar samfélagslega skaða sem hún veldur.
Sómalía og Suður Súdan sitja á botni listans með aðeins 12 stig af 100 mögulegum. Norður Kórea situr í 170 sæti af 180 löndum og hefur færst upp um 10 sæti frá árinu 2012. Bandaríkin sitja í 25. sæti með 67 stig af 100 mögulegum og hafa fallið niður um 6 sæti frá 2012.
Alþjóðastofnanir hafa lýst því yfir og rannsóknir sýna með óyggjandi hætti að spilling er illvíg meinsemd sem ógnar lýðræðinu, grundvallarréttindum, tækifærum og lífsgæðum fólks hvarvetna í heiminum og grefur undan trausti í samfélaginu og gagnvart stjórnvöldum og stofnunum á sviði framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds.“ Hér er hægt að skoða frétt Rúv.is af málinu.