Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lagði fram fyrirspurn um Borgarlínu á Alþingi í dag til fjármálaráðherra. Skv. umræðum á þingi í dag, er staðan mjög frábrugðin því sem að hefur verið haldið fram í kosningabaráttunni. Fjármögnun liggur ekki fyrir og framkvæmdir eru ekki fyrirsjáanlegar.
Sigmundur Davíð lagði fram eftirfarandi fyrirspurn varðandi borgarlínu : ,,Nú eru borgarstjórnarkosningar afstaðnar og væntanlega er auðveldara að ræða núna mál sem gátu e.t.v. talist á einhvern hátt viðkvæm deilumál í aðdraganda þeirra kosninga. Ég spurði fyrir nokkrum vikum um áform ríkisstjórnarinnar hvað varðar svokallaða borgarlínu.
Þá kom fram í máli fjármálaráðherra að ekkert sérstakt fjármagn hefði verið sett í þá framkvæmd, enda er það svar í samræmi við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem nær til fimm ára. Reyndar liggur ekki heldur fyrir fjármagn í þessa framkvæmd hjá borginni sjálfri í áætlun hennar. Mér þótti því mjög undarlegt að fylgjast með því varðandi þetta mál, áform eða áhuga á lagningu svokallaðrar borgarlínu, hvað sem það nú þýðir, að reynt var að gera það að einu stærsta kosningamálinu í Reykjavík.
Nú ætti að vera óhætt að spyrja ráðherra hvort hann meti það ekki sem svo að þetta sé ekki mál sem verði til lykta leitt á næstu misserum. Enda, eins og ég gat um áðan, er hvergi gert ráð fyrir þessari risaframkvæmd, ef af yrði, í fjármálaáætlunum þessarar ríkisstjórnar eða borgarinnar. Má ekki gera ráð fyrir að þetta sé hugsanlega seinni tíma mál en ekki mál sem er aðkallandi í Reykjavík núna? Eða má gera ráð fyrir að einhverjar stórar ákvarðanir verði teknar um það í fyrirsjáanlegri framtíð? Bjarni Benediktsson
Fjármálaráðherra svaraði ,, Það er um þetta mál að segja að það er afskaplega skammt á veg komið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það er í sjálfu sér ekki lengra komið í samskiptum þessara aðila en svo að óskað var eftir því bréflega af hálfu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að eiga samtal um þessi mál við ríkið. Vel hefur verið tekið í það af hálfu ríkisstjórnarinnar og í nýrri fjármálaáætlun til fimm ára sem liggur frammi er þess getið að þetta samtal muni eiga sér stað.
En ef menn vilja kafa dýpra og spyrja sig hvort í fjármálaáætluninni sé að finna nú þegar fulla fjármögnun á þeim hluta sem nefnt hefur verið að falli í skaut ríkisins er nokkuð auðlesið út úr áætluninni að svo er ekki. Það breytir því ekki að ég geri ráð fyrir að þetta samtal verði formgert og verði þá að verulegu leyti á hendi samgönguráðherra að fylgja því eftir. En mér finnst og ég hef lýst því yfir áður að umræðan um borgarlínuna hafi í raun og veru farið langt fram úr öllu eðlilegu samhengi málsins.
Það er einfaldlega statt þannig að bent hefur verið á leið sem menn segja að kosti 70 milljarða kr. Við erum að tala um fjárhæð sem hefur staðið í okkur í heilan áratug að skrapa saman til að endurreisa Landspítalann. Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir.
Það er þess vegna dálítið einkennilegt að menn telji sig geta gengið til kosninga og kosið beinlínis um það þegar hvorugur aðilinn hefur sýnt fram á að hann hafi úr því að spila sem þarf til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd.
Sigmundur Davíð sagði þá ,, Ég þakka tiltölulega skýr svör fjármálaráðherra. Það er ekki hægt að skilja mál hans öðruvísi en svo að ekki sé gert ráð fyrir að settar verði í fyrirsjáanlegri framtíð, segjum fimm ár, fjármagn í þessa framkvæmd, í framkvæmdina sjálfa, enda tilgangurinn með ríkisfjármálaáætlun til þetta langs tíma að gefa einhverja sæmilega vissu um það í hvað stefni.
Það stefnir greinilega ekki í borgarlínu á því kjörtímabili sem hófst í gær í sveitarstjórninni. Hæstv. ráðherra lætur auðvitað fylgja sögunni að samtal muni eiga sér stað. Ekki ætla ég að setja út á það að menn spjalli saman. En það samtal mun þá væntanlega standa í a.m.k. fimm ár áður en farið verður að setja peninga í framkvæmdir við borgarlínu og veitir kannski ekkert af fimm árum til að velta þessum hlutum fyrir sér.“
Fjármálaráðherra hafði að lokum þetta um málið að segja ,, Í tilefni af því að í tveimur síðustu stjórnarsáttmálum hefur verið minnst á borgarlínu vil ég að það komi fram að báðir samgönguráðherrarnir í þeim ríkisstjórnum hafa lagt á það áherslu að ekki verði rætt einslega um borgarlínuna eða bættar almenningssamgöngur án þess að það sé sett í eitthvert heildarsamhengi samgangna á viðkomandi svæði, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu.
Það er alveg ljóst að þörf er fyrir verulegt fjármagn, þótt ekki sé nema í viðhald og aðrar stofnvegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta þekkjum við í tengslum við Reykjanesbrautina og tengingar út úr höfuðborginni.
Það er fyrst þegar menn hafa náð heildaryfirsýn yfir verkefnin sem bíða okkar sem hægt er að hafa væntingar um að niðurstaða fáist í það formlega samtal sem sjálfsagt er að eiga. Þegar öll sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins kalla eftir því samtali finnst mér ekki annað en sjálfsagt að setjast niður. En það er mjög langt í að við sjáum niðurstöðu úr því samtali.