Getur verið að forsætisráðherra trúi á það sem hún er að segja?
Það má búast við að mörgum bregði í brún að lesa ummæli, sem höfð eru eftir Steinþóri Skúlasyni, forstjóra Sláturfélags Suðurlands og Ara Edwald, forstjóra Mjólkursamsölunnar í Morgunblaðinu í dag.
Báðir boða verðhækkanir á framleiðsluvörum fyrirtækjanna og Steinþór spáir 5-10% verðbólgu á næstu tveimur árum. Steinþórsegir ennfremur:
“ Auðvitað tel ég, eins og margir aðrir, að fyrri ríkisstjórn hafi gert herfileg mistök með því að ógilda ekki úrskurði kjararáðs. Allt sem hefur gerzt síðan er afleiðing þess.“ Og Steinþór bætir við:
„Það er ekki sannfærandi að biðja aðra um að vera með hóflegarlaunakröfur, þegar þessi fyrirmynd liggur fyrir.“
Eitthvað virðist skorta skilning á þessum augljósa sannleika hjá Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, þegar hún er spurð í blaðinu hvort ákvarðanir kjararáðs muni ekki óhjákvæmilega hafa áhrif á samningaviðræður um kaup og kjör. Katrín segir:
„Það þarf að horfa til þess sem stjórnvöld hafa gert. Það var gerð skýrsla, sem var sameiginlegt verkefni aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Niðurstaðan þar var að leggja niður kjararáð og búa til nýtt fyrirkomulag, sem kemst á í haust.“
Getur verið að forsætisráðherra trúi því að þetta leysi málið?!
Og er ráðherrann búinn að gleyma afstöðu fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar í þeirri nefnd?
Það eru erfiðir tímar framundan.
Tengt efni:
Tími kominn á breytt mat á framlagi starfshópa til samfélagsins
Fyrir nokkru sagði ljósmóðir í samtali við RÚV að ljósmæður hefðu smátt og smátt farið að líta á baráttu sína sem kjarabaráttu fyrir alla þá starfshópa, sem vinna með fólki og nefndi í því sambandi ekki bara heilbrigðisstarfsfólk heldur líka kennara á ýmsum stigum skólakerfis.
Angela Merkel, kanslari Þýzkalands, hafði orð á því í heimsókn á hjúkrunarheimili fyrir aldraða að það væri umhugsunarefni, hvers vegna fólk, sem ynni með fólki væri lægra launað en þeir sem ynnu með peninga eða vélar.
Í báðum tilvikum er sú hugsun á ferð, að það sé kominn tími ábreytingu á mati á framlagi einstakra starfshópa tilsamfélagsins.
Hver eru rökin fyrir því, að sumir bankastarfsmenn hafi margföld laun á við þá, sem sinna veiku eða gömlu fólki?
Veruleikinn er auðvitað sá, að þetta snýst um aðstöðu.
Þeir sem eru í aðstöðu til sækja sér eitthvað umfram þá, sem eru ekki í aðstöðu til.
Það er kominn tími á umræður um þessi mál í breyttu samfélagi, þar sem m.a. meiri þekking er til staðar en áður. Nú vitum við t.d. að starf leikskólakennarans er a.m.k. jafn mikilvægt, ef ekki mikilvægara en starf háskólakennarans vegna þess að nú liggur fyrir vitneskja um að það sem gerist í bernsku og æsku mótar hvern einstakling meira en flest annað.“ Segir Styrmir Gunnarsson, f.v. Ritstjóri Morgunblaðsins.