Gagnsæi gegn misskiptingu
Komið hefur í ljós að sú aðgerð að leggja niður kjararáð hefur valdið launaskriði hjá þeim hæstlaunuðu hjá ríkinu. Það var engin umræða um sanngjörn laun í tengslum við þá aðgerð. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Á meðan við leggjum ekki skýrar línur í þessum málum skiptir engu máli hverjir ákveða launin. Einföld aðgerð eins og að breyta því hver jir ákveða laun þeirra launahæstu skilar engu réttlæti í sjálfu sér án skýrra reglna um launaákvarðanir. Tilhneigingin er alltaf sú að þeir sem hafa meira fá meira og þeir sem minna hafa fá minna.
Það er löngu tímabært að mótuð verði skýr og sanngjörn launastefnu hjá ríkinu og í stjórnum fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka. Festa þarf í lög að fyrirtæki geri grein fyrir launabili í ársreikningum og stjórnvöld þurfa að setja skýra launastefnu þar sem tilgreint er hvert launabilið megi vera á milli þeirra hæst launuðu og lægst launuðu.
Við þurfum að bregðast við þeirri móðgun og augljósu stéttaskiptingu sem birtist okkur í hvert sinn sem skattskrár eru gerðar opinberar. Það er ekki nóg að fordæma ofurlaun einu sinni á ári án þess að aðhafast nokkuð. Það er kominn tími til aðgerða.
Miðstjórn ASÍ hvetur fulltrúa í stjórnum, trúnaðarmenn á vinnustöðum, stjórnmálafólk, starfsfólk og stjórnendur til að ræða launamun innan þeirra fyrirtækja og stofnana sem og innan samfélagsins alls. Móta þarf stefnu sem byggir á niðurstöðu þess samtals.
Það er afar brýnt að allir landsmenn greiði skatta og gjöld til samfélagsins óháð uppruna tekna, svo sem arðgreiðslur úr fyrirtækjum eða fjármagnstekjur. Upplýsingar um slíkt þurfa að vera aðgengilegar og gagnsæjar. Miðstjórn ASÍ hvetur Alþingi jafnframt til að samþykkja að birta álagningarskrár með rafrænum hætti, þar sem birtir eru allir álagðir skattar, þannig að aðgengi að þessum samfélagslega mikilvægu upplýsingum sé tryggt.