Viðreisn mælist næststærsti flokkurinn í nýrri könnun Maskínu sem birtist á Vísi í hádeginu. Þar mælist Viðreisn með 16,2% atkvæða. Flokkur fólksins tekur stærsta stökkið á milli kannana Maskínu og mælist með 9,3%. Samfylkingin er áfram stærst og mælist með 22,2%.
Miðflokkurinn er þriðji stærsti flokkurinn samkvæmt könnuninni og mælist með 15,9% og Sjálfstæðisflokkur fjórði stærsti með tæp 14%. Samkvæmt könnuninni er Framsóknarflokkurinn svo síðasti flokkurinn sem næði mönnum inn á þing með 6,9%.
Miðað við þingstyrk á landsvísu myndu þingsæti skiptast þannig: Samfylkingin fengi 17 þingsæti, Viðreisn 12, Miðflokkurinn 12, Sjálfstæðisflokkurinn 10, Flokkur fólksins 7 og Framsókn 5.
Flokkar sem næðu ekki inn á þing samkvæmt könnuninni eru Vinstri græn og Píratar. Píratar tapa rúmum 2% á milli kannana og mælast með 4,5%. Vinstri græn mælast með 3,8%.
Í tilkynningu Maskínu segir að fylgi Samfylkingarinnar sé marktækt meira en fylgi annarra flokka. Hins vegar er ekki marktækur munur á mældu fylgi næstu þriggja flokka á eftir, Viðreisnar, Miðflokks og Sjálfstæðisflokks.