Vegna áframhaldandi snjókomu á höfuðborgarsvæðinu er fólk eindregið hvatt til að halda sig heima og vera alls ekki á ferðinni að nauðsynjalausa.

Gul viðvörun vegna veðurs er í gildi í umdæminu, en hún mun breytast í appelsínugula viðvörun kl. 17, en áfram er spáð mikilli snjókomu eða slyddu með lélegu skyggni. Fólk sem fór að heiman í morgun er beðið um að huga að heimferð sem allra, allra fyrst (mjög gott ef fólk er komið til síns heima fyrir kl. 15) því færðin og veðrið á bara eftir að versna eftir því sem líður á daginn.
Áfram má búast miklum samgöngutruflununum og fólk er hvatt til að sýna aðgát og fylgjast með veðurspám. Þetta er dagurinn og kvöldið til að vera heima og hafa það notalegt, en ekki ana út í umferðina og sitja þar fastur! Fólk er beðið um að sækja ekki þjónustu í dag sem getur auðveldlega beðið betri tíma, t.d. sundlaugar og bókasöfn, en hvatt er til að þeim verði lokað. Nauðsynlegri þjónustu verður hins vegar haldið úti, t.d heilbrigðisstofnanir og ýmiss velferðarþjónusta.
Þá er það ítrekað, enn og aftur, að ökumenn á vanbúnum ökutækjum eiga alls ekki að vera í umferðinni í þessari miklu vetrarfærð. Þrátt fyrir aðvarnanir hefur borið mikið á því dag og hefur það ollið mjög miklum vandræðum. Vanbúin ökutæki verða fjarlægð á kostnað eigenda. Best er samt að allir sem mögulega geta haldi sig heima á meðan veðrið gengur yfir, óháð öllum dekkjabúnaði ökutækja.

