Starfsmanni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið vikið úr starfi fyrir að dreifa myndskeiði sem sýndi hnífaárásina á næturklúbbnum Bankastræti Club. Málið telst upplýst. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari við fréttastofu rúv sem birti fyrst fréttina. Nokkrir voru kallaðir til yfirheyrslu í tengslum við rannsókn málsins. Ekki er talið að starfsmaðurinn hafi haft í hyggju að myndskeiðið birtist í fjölmiðlum.
Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðarlögreglustjóri, segir í samtali við fréttastofuna að að embættið hafi afþakkað vinnuframlag frá viðkomandi starfsmanni á meðan rannsókn málsins stendur. Frekari ákvörðun verði tekin um næstu skref þegar öll gögn málsins berist til embættisins. Myndskeiðið sýndi hvernig hópur réðst inn á Bankastræti Club og veittist þar að þremur mönnum.
Fjölmiðlar birtu það í síðustu viku eftir að það fór í dreifingu manna á milli á samfélagsmiðlum. „Þetta virðist vera tekið upp með síma af tölvuskjá, og það virðist vera sem svo að þetta sé tölvuskjár frá lögreglunni,“ sagði Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, við fréttastofu rúv, daginn eftir að myndirnar birtust.