Lítil dráttarvél féll niður um ísinn á Rauðavatni síðdegis en þar var unnið að gerð skautasvells. Enginn slasaðist og er unnið að því að ná vélinni upp úr vökinni að því er kemur fram á vef ríkisútvarpsins.
Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar, segir að ísinn hafi ekki reynst nægilega traustur þegar á reyndi þó búið hafi verið að mæla þykktina á ísnum áður. „Þykktin var um 15 sentímetrar en það dugði ekki til, því miður því nú þarf að eyðileggja skautasvellið til að ná henni upp.“ Sagði Bjarni í viðtali við RÚV um málið.
Dráttarvélin var notuð til að ryðja snjónum ofan af ísnum til að búa til skautasvell. „Það stóð til að gera úr þessu prýðisgott svell fyrir íbúa í austurbænum en því miður verður þetta svona í bili. Þetta verður lagað við fyrstra tækifæri ef það heldur áfram að vera svona gott veður og frost,“ sagði Bjarni í viðtalinu.
Umræða