Blóðtaka úr fylfullum hryssum til lyfjaframleiðslu á sér langa hefð hér á landi. Þrátt fyrir að óvissa hafi ríkt um lagalega umgjörð starfseminnar er ljóst að Matvælastofnun fer með það hlutverk að tryggja velferð hryssnanna og hefur í þeim tilgangi sett starfseminni strangar verklagsreglur sem eru byggðar á niðurstöðum eftirlits undangenginna ára. Starfsemin er undir viðamiklu eftirliti stofnunarinnar þar sem reyndir eftirlitsmenn koma árlega á hverja einustu starfsstöð og fylgjast með blóðtökunni. Því til viðbótar skilar Ísteka ehf árlega skýrslu um innra eftirlit fyrirtækisins. Að gefnu tilefni skal tekið fram að stofnunin er ekki aðili að deilum einstakra bænda við Ísteka ehf.
Stofnunin tekur allar ábendingar um illa meðferð dýra til alvarlegrar skoðunar. Eins og fram kemur í sérstakri eftirlitsskýrslu fyrir blóðtöku á árinu 2022, kom upp grunur um að ástæðu þess að fjórar hryssur sem drápust í kjölfar blóðtöku á Lágafelli árið 2022, mætti rekja til reynsluleysis dýralækna sem að blóðtökunni komu. Hræin höfðu þá þegar verið grafin en vísað var til þess að krufningsskýrsla lægi fyrir í einu tilfelli. Þrátt fyrir að öðru hafi verið haldið fram í umfjölluninni barst ekki skrifleg skýrsla til stofnunarinnar en innihald hennar var að nokkru reifað í símtali. Það er ljóst að viðkomandi dýralæknar báru ábyrgð á meintum læknamistökum, bæði samkvæmt lögum um dýralækna en einnig samkvæmt þágildandi reglugerð um velferð hryssna sem notaðar eru til blóðtöku. Erfitt var fyrir Matvælastofnun að fylgja málinu eftir vegna skorts á sönnunargögnum og vegna þess að að viðkomandi dýralæknar heyrðu undir pólsk dýralæknayfirvöld, ekki íslensk. Engu að síður og í anda þess að dýrin njóti ævinlega vafans, taldi Matvælastofnun nauðsynlegt að grípa strax til fyrirbyggjandi aðgerða með kröfu um tafarlausa þjálfun dýralækna sem komu nýir að þessari starfsemi. Ísteka ehf brást við með því að fá reyndari dýralækna í það verk sem kom í veg fyrir fleiri sambærileg atvik á tímabilinu. Í kjölfarið var varanlegri kröfu um þjálfun nýrra dýralækna bætt við þær starfsreglur sem fyrirtækinu ber að starfa eftir. Ísteka lagði fram þjálfunaráætlun fyrir komandi blóðtökutímabil sem stofnunin hafði eftirlit með. Í samantektarskýrslu um niðusrstöður eftirlits með blóðtöku árið 2023 kemur fram að út frá sjónarmiði dýravelferðar hafi blóðtakan gengið vel og ljóst að fyrirbyggjandi aðgerðir, svo sem þjálfun nýrra dýralækna og aukið innra og ytra eftirlit, hafi skilað árangri.
Þá voru niðurstöður rannsóknar Tilraunastöðvar HÍ á Keldum og Landbúnaðarháskóla Íslands um blóðhag blóðtöku hryssna settar fram með bjögðuðum hætti. Viðmælandi þáttarins hafði lesið það út úr skýrslunni að 500 hryssur í blóðtöku liðu fyrir blóðskort og var sú niðurstaða dregin sérstaklega fram af þáttarstjórnanda. Í skýrslunni segir orðrétt:
„Lægstu meðalgildi blóðfrumnahlutfalls og blóðrauða á blóðsöfnunartímabilinu voru yfir lágmarks viðmiðum um blóðleysi í báðum stóðum. Í stóðinu á Norðurlandi voru þau lægst eftir tvö og þrjú skipti blóðsöfnunar og hækkuðu svo jafnt og þétt. Á Suðurlandi var lægsta meðalgildi blóðfrumnahlutfalls ekki fyrr eftir sjö skipti, og tók svo að hækka. Sem viðbragð við þessari lækkun urðu rauðfrumur stærri og innihéldu meiri blóðrauða í báðum stóðum, sem náði hámarki eftir fimm skipti og var hækkun þeirra gilda enn til staðar þremur vikum eftir síðustu blóðsöfnun.
Tólf hryssur af 160 (7,5%) mældust með blóðfrumnahlutfall einu sinni eða oftar sem benti til miðlungs blóðleysis (Hct <24%) en ein hryssa (0,6%) mældist með Hct undir 20%, greinilegt blóðleysi, í eitt skipti. Auk þessa voru þrjár hryssur sem ekki uppfylltu skilyrði tölfræðigreiningar sem mældust með blóðleysi, tvær undir 24% og ein undir 20%. Ef þessar hryssur eru teknar með voru 8,6% með miðlungsblóðleysi og 1,2% með greinilegt blóðleysi.
Af þeim hryssum sem mældust með gildi sem samræmdust blóðleysi var einungis ein sem sýndi merki þess að halda ekki í við blóðtap, en það sýndi sig með vanlituðum dvergrauðfrumum í blóðstroki, sem annars sáust ekki í slíkum sýnum.“
Í ritrýndri vísindagrein um sömu rannsókn er eftirfarandi ályktun sett fram: „It could be concluded that the effect of blood harvesting was generally mild and of short duration“.
Raunin er sú að framangreind rannsókn staðfestir faglegt mat Matvælastofnunar um væg áhrif blóðtöku, eins og hún er framkvæmd hér á landi, á heilsu og velferð hryssnanna.
Eftirlit með blóðtökuhryssum skýrsla
Eftirlit með blóðtökuhryssum -dýravelferð 2022