Í skýrslu þar sem niðurstöðurnar eru teknar saman er einnig vitnað í stjórnendur á þeim vinnustöðum sem tóku þátt í tilraunaverkefninu. Að þeirra mati vann starfsfólkið hraðar, lagði meira af mörkum og tók styttri pásur eftir að vinnuvikan var stytt. Þá var það upplifun stjórnenda að meira væri um samstarf og samhjálp á vinnustöðunum.
Tíminn eftir vinnu nýttist starfsfólkinu betur til að sinna fjölskyldum, vinum og tómstundum. Sérstaklega var mikil ánægja með tilraunaverkefnið hjá þeim sem hættu snemma á föstudögum og fannst þeim muna mikið um að lengja helgarfríið á þennan hátt.
Þegar makar starfsmannanna voru spurðir um áhrifin sögðu þeir að styttingin hafi létt álagi af fjölskyldum þeirra, sér í lagi þar sem ung börn voru á heimilinu. Upplifun makanna var almennt sú að dregið hafi úr streitu á morgnana og seinnipartinn og makinn væri ekki eins þreyttur eftir vinnudaginn.
Mikil áhrif hjá vaktavinnufólki
Áhrifin af styttingu vinnuvikunnar voru sérstaklega mikil hjá vaktavinnufólki, sem upplifði fleiri samvinnustundir með fjölskyldu eftir að vinnuvika þeirra styttist.
Upplifun stjórnenda af eigin styttingu var sú að sumir þeirra töldu sig eiga erfiðara með að stytta vinnutímann samanborið við almenna starfsmenn eftir að tilraunaverkefnið hafði verið í gangi í sex mánuði. Eftir tólf mánuði var orðið algengara að þeir styttu vinnutímann.
Nánar er fjallað um niðurstöður rannsóknarinnar á vef Félagsmálaráðuneytisins. Þeir sem vilja kynna sér málið betur geta lesið nánar um niðurstöðurnar í skýrslunni Tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma hjá ríkinu.
Stytting vinnuvikunnar stóra málið í kjarasamningsviðræðum
BSRB hefur lagt áherslu á styttingu vinnuvikunnar í viðræðum um nýjan kjarasamning við ríki og sveitarfélög sem nú eru í gangi. Bandalagið krefst 35 stunda vinnuviku og meiri styttingar fyrir vaktavinnufólk í viðræðunum.