Sérstakri 12 mánaða langri vitundarvakningu 112 gegn heimilisofbeldi að ljúka
Eitt ár er liðið frá því ríkislögreglustjóri opnaði sérstaka vefgátt 112 vegna ofbeldis. Gáttinni er ætlað að auðvelda þolendum, gerendum og aðstandendum að leita sér aðstoðar. Frá opnun hafa að meðaltali 235 einstaklingar heimsótt síðuna á dag. Þessi fjöldi heimsókna er talsvert meiri en búist var við og sýnir að þörfin fyrir úrræði sem þetta, til að fræðast um og tilkynna heimilisofbeldi, er mikil.
Algengt er að þau sem heimsækja vefinn séu að leita upplýsinga um andlegt ofbeldi og er eitt mest lesna efnið á síðunni það sem sniðið hefur verið sérstaklega að ungu fólki. Af þeim úrræðum sem kynnt eru í vefgáttinni er algengast að fólk kynni sér Heimilisfrið, meðferðarstöð fyrir þau sem beita ofbeldi í nánum samböndum.
Sérstakri 12 mánaða langri vitundarvakningu 112 gegn heimilisofbeldi er nú formlega lokið en vefgátt 112 gegn ofbeldi fær framvegis varanlegan bústað hjá Neyðarlínunni og verður þróuð áfram í takt við nýjustu upplýsingar og þekkingu. Fjöldi heimsókna í vefgáttina sýnir að það eru margir sem ekki þorðu að hringja en eru til í að eiga samskipti í gegnum netið, tilkynna ofbeldi þar eða kynna sér aðstoð sem er í boði.
Tilkynningum til barnaverndarnefnda hefur haldið áfram að fjölga
Alls voru 1.049 mál tengd heimilisofbeldi tilkynnt hér á landi árið 2020 hjá öllum lögregluembættunum, um 16% fleiri en meðaltal síðustu þriggja ára þar á undan. Fjöldi tilkynntra mála hefur ekki farið í fyrra horf. Fyrstu níu mánuði þessa árs var tilkynnt um 795 mál tengd heimilisofbeldi, einu máli færra en í fyrra þegar þau voru 796.
Tilkynningum til barnaverndarnefnda hefur haldið áfram að fjölga á þessu ári. Á fyrstu 9 mánuðum ársins bárust 9.792 tilkynningar, sem eru 2,3% fleiri tilkynningar en á sama tímabili í fyrra og aukning um 17% frá sama tímabili árið 2019. Á síðasta ári fjölgaði mest tilkynningum frá ættingjum, nágrönnum og einstaklingum í nærumhverfi barns en fyrstu 9 mánuði þessa árs hefur tilkynningum fjölgað mest frá skólum.
100 viðtöl í mánuði við gerendur ofbeldis hjá Heimilisfriði
Þegar litið er til þjónustu fyrir þolendur heimilisofbeldis komu 827 einstaklingar í fyrsta viðtal í Bjarkarhlíð, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis árið 2020. Í heildina varð 47% fjölgun mála í Bjarkarhlíð á milli ára og voru tvö af hverjum þremur málum vegna heimilisofbeldis. Árið 2021 hefur málum haldið áfram að fjölga og höfðu 810 einstaklingar komið í fyrsta viðtal í byrjun október.
Þegar litið er til gerenda ofbeldis í nánum samböndum þá jókst verulega eftirspurn eftir þjónustu Heimilisfriðs, meðferðarstöðvar fyrir þau sem beita ofbeldi í nánum samböndum. í Covid-19 faraldrinum. Á árinu 2019 voru að meðaltali 42 einstaklingsviðtöl á mánuði við gerendur.
Í byrjun árs 2020 fór að bera á aukinni aðsókn, en þá jókst fjöldi viðtala á mánuði upp í 62 að meðaltali fyrstu 3 mánuði ársins og í apríl voru þau komin vel yfir 100 á mánuði og hefur sá fjöldi haldist nokkuð stöðugur síðan. Á vefgátt 112.is var einnig Taktu skrefið kynnt í fyrsta sinn, en það er nýtt úrræði til að aðstoða þau sem hafa áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni eða hafa beitt kynferðisofbeldi.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra: „Mikil vakning hefur átt sér stað varðandi ofbeldismál og þá ekki síst ofbeldi í nánum samböndum eða þar sem börn eiga um sárt að binda. Það er skylda okkar sem erum kjörin á þing að berjast fyrir betra samfélagi og það á líka við um að líta ekki undan ofbeldi eða áreitni og leggja okkar af mörkum til að bæta umhverfi þolenda.
Unnið hefur verið að umbótum á löggjöf, bættu verklagi við meðferð ofbeldismála innan réttarvörslukerfisins, aukinni vernd fyrir þolendur, einfaldari meðferð nálgunarbanns og auknum skilningi á þörfum þolenda brotanna. Margt hefur vissulega áunnist en þessi málaflokkur mun áfram njóta okkar fyllsta áhuga og athygli.“
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Í Covid-19 heimsfaraldrinum hefur það verið forgangsverkefni okkar að grípa börn og aðra viðkvæma hópa. Reynslan sýnir okkur því miður að við þær aðstæður sem sköpuðust í faraldrinum aukast líkur á að börn verði þolendur vanrækslu og ofbeldis, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt. Það er mikilvægt að við grípum snemma inn í til að vernda börn og aðra hópa í viðkvæmri stöðu og bjóðum upp á fjölbreytt úrræði þar sem þolendur geta leitað sér hjálpar.
Þá er afskaplega mikilvægt að í boði sé markviss meðferð fyrir gerendur ofbeldis þar sem gerendur fá faglega aðstoð við að ná tökum á hegðun sinni. Vefgátt 112 hefur heldur betur sannað gildi sitt undanfarið ár sem mikilvægt úrræði og því er það fagnaðarefni að það fái nú varanlegt heimili hjá Neyðarlínunni.”
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri: „Heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum er ekki einkamál sem rúmast innan friðhelgi heimilisins, heldur samfélagslegur harmleikur sem við verðum að stöðva. Áhersla okkar í Covid-19 heimsfaraldrinum var að auðvelda fólki að leita sér aðstoðar og vefgátt 112 gegn ofbeldi var mikilvægt skref í rétta átt.
Það hjálpaði mörgum að leita sér aðstoðar út úr ofbeldinu. Þótt nú sjái fyrir endann á baráttunni gegn Covid-19, heldur baráttan gegn heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum áfram. Því er einkar mikilvægt að vefgátt 112 gegn ofbeldi hefur fengið varanlegan bústað hjá Neyðarlínunni og verður þróuð áfram í takt við nýjustu upplýsingar og þekkingu.”
Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar: „Eftir að hafa móttekið neyðarköll í 112 í 25 ár þótti okkur orðið tímabært að blanda okkur í forvarnirnar og leggja okkar af mörkum til að fækka neyðarköllunum. Þegar aðgerðarteymið hafði samband við okkur um nýtingu vefsíðunnar 112.is sem allsherjarfræðslugátt gegn ofbeldi, þá stukkum við á það. Núna ári eftir að verkefnið fór af stað gætum við ekki verið ánægðari með hvernig til hefur tekist og erum staðráðin í að efla þessa forvarnarhlið okkar starfsemi til framtíðar.“
Um vitundarvakningu 112 gegn heimilisofbeldi:
- Ríkislögreglustjóri opnaði á upplýsingafundi Almannavarna þann 15. október 2020 vefgátt 112 vegna ofbeldis. Samhliða hófst vitundarvakning 112 þar sem fólk var hvatt til að segja frá ofbeldi og leita aðstoðar.
- Algengast er að notendur heimsæki vefinn í gegnum farsíma/snjalltæki, eða rúmlega 60% af heimsóknunum.
- Frá opnun hafa rúmlega 600 netspjöll verið stofnuð, um 40 ljósmyndir sendar, netspjall 1717 hjá Rauða krossinum hafið 246 sinnum og spjall við Heilsuveru 58 sinnum.
- Á síðunni hefur einnig verið hægt að bóka viðtöl hjá Bjarkarhlíð, þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis og hafa 311 bókanir verið gerðar.
- Vefgátt 112 vegna ofbeldis var hluti af tillögum aðgerðateymis gegn ofbeldi til stjórnvalda vegna mikillar fjölgunar tilkynninga vegna heimilisofbeldis til lögreglunnar og til barnaverndarnefnda árið 2020. Þannig fjölgaði tilkynningum um heimilisofbeldi til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um 11% í apríl það ár, miðað við meðaltal síðustu þriggja ára þar á undan. Tvær konur fundust látnar á heimilum sínum í mars og apríl 2020 þar sem nátengdir ættingjar voru handteknir og síðar ákærðir fyrir manndráp. Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði um 9,5% fyrstu 3 mánuði ársins 2020.
- Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra skipuðu aðgerðateymið til að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi.
- Aðgerðateymið skipuðu Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri og Eygló Harðardóttir, fv. félags- og húsnæðismálaráðherra.
- Á næstu vikum verður áherslan á netöryggi, stafrænt ofbeldi og fræðslu fyrir börn og ungmenni gegn ofbeldi.
- Ný útgáfa af 112 appinu mun koma út sem auðveldar fólki sem gæti átt erfitt með að lýsa aðstæðum í síma að miðla upplýsingum til neyðarvarða.
- Fólk er áfram hvatt til að leita sér aðstoðar undir hvatningarorðum vitundarvakningarinnar: Segðu frá – 112, nú þegar sér fyrir endann á Covid-19 faraldrinum.