Fjórir starfsmenn heilbrigðisþjónustu voru bólusettir við COVID-19 kl. 9.00 í morgun og voru þar með fyrstir allra til að hljóta bólusetningu hér á landi. Klukkan 10.00 hófst bólusetning á hjúkrunarheimilum. Þorleifur Hauksson var fyrstur íbúa á hjúkrunarheimili til að fá bólusetningu en hann býr á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð í Reykjavík. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fylgdust með bólusetningu Þorleifs, ásamt starfsfólki Seljahlíðar og fjölmiðlafólki og var tímamótunum vel fagnað af Þorleifi og öðrum viðstöddum.
Heilbrigðisstarfsfólkið sem var bólusett fyrst allra kl. 9.00 í morgun voru þau Kristina Elizondo, sjúkraliði á gjörgæsludeild, Kristín Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild, Elías Eyþórsson, sérnámslæknir í lyflækningum, og Thelma Guðrún Jónsdóttir, aðstoðarmaður á bráðamóttöku.
Tíuþúsund skammtar af bóluefni Pfizer komu til landsins í gær. Bólusetja þarf hvern og einn tvisvar sinnum og dugir efnið því fyrir 5.000 manns. Flutningar bóluefnisins út um land hófust í morgun, bólusetning framlínustarfsfólks á Landspítala er hafin og eftir hádegi í dag verður framlínustarfsfólk Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins bólusett.